Beint í efni

Sala á próteingrunni 116,2 milljónir lítra – söluyfirlit fyrir maí

26.06.2009

Eftir maímánuð var sala á próteingrunni undanfarna 12 mánuði 116,2 milljónir lítra. Það er örlítill samdráttur m.v. árið á undan, eða sem nemur 0,04%. Mest aukning er í mjólkurflokknum, 5,4% en þar munar mestu um mjólk í lausu máli til iðnaðarnota (nær eingöngu til Mjólku ehf) en í þann lið fara 2,9 milljónir lítra sl. 12 mánuði. Sala á fitugrunni er 112,7 milljónir lítra sem er aukning um 2%, þar munar mest um 3,1% aukningu í viðbiti. Í öðrum vöruflokkum en þessum tveimur framantöldu er samdráttur í sölu á sl. 12 mánuðum.

Það blæs því ekki sérlega byrlega varðandi greiðslumark næsta árs. Ákveðið hefur verið að bíða með að taka ákvörðun um greiðslumark næsta verðlagsárs, sem hefst 1. september 2009 og stendur til 31. desember 2010, þar til sölutölur yfirstandandi mánaðar liggja fyrir. Að sögn þeirra sem gerst þekkja, hefur salan gengið ágætlega það sem af er júnímánuði.

 

Miðað við söluþróun undanfarna mánuði, er líklegt að greiðslumarkið verði rúmlega 150 milljónir lítra, sem skiptist í sömu hlutföllum milli greiðslumarkshafa og nú er. Greiðslumark yfirstandandi árs er 119 milljónir lítra, aukning greiðslumarksins helgast eingöngu af því að næsta verðlagsár verður 16 mánuðir, í stað 12 eins og nú er. Í rauninni verður því um samdrátt að ræða, að óbreyttu ætti greiðslumarkið að verða 159 milljón lítrar. Ljóst er að sala á innanlandsmarkaði gefur ekki tilefni til þess.