Beint í efni

Sala á próteingrunni 113,7 milljónir lítra – mikil smjörsala í desember

17.01.2012

Samkvæmt mánaðaryfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði er sala sl. 12 mánuði 113,7 milljónir lítra á próteingrunni. Það er 0,9% samdráttur frá fyrra ári. Sala á fitugrunni á sama tímabili er 111,5 milljónir lítra. Það er 0,8% aukning frá 2010. Athygli vekur að í desember sl. seldist 26% meira af smjöri en í sama mánuði í fyrra, greinilegt að landsmenn hafa tekið jólabaksturinn föstum tökum í ár. Þá er mikið flug á Fjörmjólkinni, eftir að tappi var settur á fernurnar sl. sumar hefur söluaukningin verið um 45% miðað við sömu mánuði í fyrra. Samdráttur er þó á mjólkurflokknum í heild.

Heildarinnvigtun mjólkur var 124,4 milljónir lítra, sem er 1% aukning frá síðasta ári. Það er 8,4 milljónum lítra umfram greiðslumark nýliðins árs. Fluttar voru út mjólkurafurðir úr 10,7 milljónum lítra á próteingrunni og 11,9 milljónum lítra á fitugrunni./BHB