Sala á nautakjöti 4.200 tonn
17.07.2013
Samkvæmt nýjum tölum frá Landssamtökum sláturleyfishafa er sala á nautakjöti undanfarna 12 mánuði 4.215 tonn. Það er aukning um 3,7% frá árinu á undan. Salan skiptist þannig að af ungnautakjöti seldust 2.441 tonn, 5,9% aukning, af kýrkjöti seldust 1.705 tonn sem er rúmlega 1% aukning. Af ungkálfakjöti seldust rúm 50 tonn, sem er 13% samdráttur, og af alikálfakjöti seldust 17 tonn, sem er 16% aukning. Sem fyrr helst framleiðslan alveg í hendur við sölu, en á því tímabili sem hér um ræðir voru framleidd 4.223 tonn af nautakjöti.
Sala annarra kjöttegunda undanfarna 12 mánuði skiptist þannig að sala á alifuglakjöti var tæp 7.900 tonn (+5,9%), af kindakjöti seldust rúmlega 6.400 tonn (+0,8%), sala á svínakjöti var rúmlega 5.500 tonn (-1,9%) og tæp 600 tonn seldust af hrossakjöti (+2,8%).
Heildar kjötsala í júní sl. var 8,8% minni en í sama mánuði í fyrra, sem kemur heim og saman við fréttir af minni sölu á grillkjöti, vegna óhagstæðs tíðarfars á sunnan- og vestanverðu landinu undanfarnar vikur./BHB