Sala á mjólkurafurðum í janúar
17.02.2010
Þokkaleg sala var á mjólkurafurðum í janúar sl., lítils háttar aukning var í sölu á ostum og góð sala á dufti, talsverður samdráttur í jógúrt og rjóma en aðrar afurðir í jafnvægi. Ef salan er umreiknuð á 12 mánaða tímabil er sala á próteingrunni 117,5 milljónir lítra, aukning um 0,7% frá sama tímabili árið áður; sala á fitugrunni undanfarna 12 mánuði er 115,2 milljónir lítra sem er 2,8% aukning. Þegar greiðslumark yfirstandandi verðlagsárs var ákveðið, var miðað við um 116,25 milljón lítra sölu á 12 mánaða tímabili, salan er því heldur meiri en það.
Innvigtun undanfarna 12 mánuði er 125,1 milljón lítra sem er tæplega 1% samdráttur. Það sem af er verðlagsárinu (sep.09-jan.10) er innvigtunin orðin tæplega 48,7 milljónir lítra, á móti tæplega 49,9 milljónum lítra á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn er 2,5%, í desember og janúar var hann um 4% minni en í fyrra, svo samdrátturinn í framleiðslunni er heldur að aukast.