Beint í efni

Sala á fitugrunni 125,5 milljónir lítra

11.07.2014

Samkvæmt nýútkomnu söluyfirliti Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði er sala mjólkurafurða á fitugrunni undanfarna 12 mánuði (júlí 2013 til júní 2014) komin í 125,5 milljónir lítra. Það er aukning frá árinu á undan um 7,8%. Á sama tímabili var sala á próteingrunni 118,8 milljónir lítra, sem er aukning um 2,7% frá fyrra ári. Nú á miðju ári er sala á fitugrunni þegar orðin meiri en sem nemur greiðslumarki yfirstandandi árs, sem var ákveðið 125 milljónir lítra í lok desember sl. Á undanförnum 18 mánuðum, síðan í desember 2012, hefur sala á fitugrunni aukist um 11,5 milljónir lítra á ársgrundvelli. Það er nálægt því að vera jafn mikið og öll mjólkurframleiðslan í Skagafirði, svo dæmi sé tekið. Undanfarna mánuði hefur söluaukningin mánuð hvern verið á við ársframleiðslu fjögurra til fimm meðal kúabúa. Markaðsaðstæður gefa því tilefni til að bændur framleiði af fullum krafti næstu misserin, í takt við vaxandi sölu mjólkurafurða./BHB