Sænskir og norskir kúabændur sameina kraftana
23.08.2010
Undanfarna mánuði hafa verið miklar sviptingar á afurðastöðvamarkaðinum þar sem margar afurðastöðvar í Evrópu hafa verið sameinaðar eða keyptar upp. Nú hefur sænska afurðastöðin Skånemejerier og norska fyrirtækið Wernersson Ost stofnað sameiginlegt sölufyrirtæki, en fyrirtækin ætla sér stóra hluti á sænska stórkaupendamarkaðinum.
Wernersson Ost, sem er í eigu norska framleiðendasamvinnufélagsins Tine, er þekkt fyrirtæki á ostamarkaðinum en það hefur sérhæft sig í heildsölu á osti og innflutningi sérosta. Með samvinnu þessara tveggja aðila verður til afar sterkt sölufyrirtæki en sameiginleg velta móðurfyrirtækjanna er 3,6 milljarðar sænskra króna eða um 58 milljarðar íslenskra króna.