Beint í efni

Sænskir kúabændur óhressir með beitarkröfuna

30.05.2015

Nú í vor hafa verið líflegar umræður í Svíþjóð um beitarkröfuna sem gerð er á alla nautgripi í landinu en nautgriparæktardeild Bændasamtakanna í Svíþjóð, LRF Mjölk, hefur barist fyrir því að stjórnvöld dragi úr afskiptum sínum af kúabúskap. Þarlent „Landssamband kúabænda“, Sveriges Mjölkbönder, hefur hins vegar viljað ganga mun lengra og afnema að fullu beitarkröfuna séu nautgripirnir haldnir í lausagöngu.

 

Þetta eru afar athyglisverðar umræður sem eiga rót sína að rekja til ársins 1988 þegar beitarkrafan var sett, en frá þeim tíma hefur ýmislegt breyst enda voru svotil öll fjós á þeim tíma básafjós. Undanfarin ár hefur samkeppnisstaða sænskra kúabænda versnað mikið, m.a. vegna kröfunnar um beitina og fengu bændurnir töluverðar breytingar í gegn árið 2012. Þá var t.d. aukinn verulega sveigjanleiki kúabúa til þess að beita gripum og hafa kúabændur getað valið beitarlotur gripanna síðan þá, þ.e. hvenær hver gripur er á beit. Áður var það ekki hægt og urðu allir gripir að vera úti á sama tíma. T.d. þurftu kýrnar að vera út á sama tíma, þ.e. í sömu beitarlotu, en nú er mun meiri skynsemi komin í kröfurnar og geta bændurnir sett kýrnar sínar út eftir því hvernig þær standa í framleiðslunni. Nú geta kúabændur t.d. uppfyllt beitarkröfurnar með því að setja geldar kýr út en haldið framleiðslukúnum inni, enda sé búið á þeim stað í landinu að hægt er að koma við beit á löngum tíma fyrir beitartímabilið. Bú í norðurhluta landsins geta þetta illa, enda beitartíminn stuttur og ná því vart að uppfylla beitarkröfurnar með geldu kúnum, nema þá allar kýr séu samstilltar.

 

Þá hafa Svíar einnig liðkað kröfurnar til beitar á kvígum en nú mega kvígur á sæðinaraldri vera inni í 45 daga, þ.e. svo auðveldara sé að sæða þær og sinna þeim. Þá geta sænskir kúabændur sótt um undanþágu frá beitarkröfunni í heild sinni en þá þurfa rökin að vera harla góð s.s. slæmt tíðarfar, skordýraplágur eða annað slíkt. Ennfremur sé skepna skráð á biðlista í sláturhús, þá þarf hún ekki að fara út.

 

Sænskir bændur þurfa að vera með skriflegt beitarskipulag þar sem þeir skrá niður beitardaga og sé veðrið slæmt þarf að skrá það í beitarskipulagið, þ.e. fari gripirnir ekki út þann daginn. Þá telst það samt sem „beitardagur“. Það verður fróðlegt að fylgjast með barráttu kúabændanna fyrir auknum sveigjanleika og hvort þeim verði ágengt með að fá frekari breytingar á beitarkröfunni/SS.