Beint í efni

Sænskir bændur vilja fá sæði úr íslenskum nautum

11.11.2003

Undanfarin misseri hefur Landssamband kúabænda unnið að því að kynna íslenska kúakynið erlendis með það í huga að kanna áhuga erlendra aðila á að kaupa sæði úr íslenskum nautum. LK hefur nú borist formlegt erindi frá sænska ræktunarsambandinu, þar sem óskað er eftir því að fá keypt sæði úr nokkrum íslenskum nautum til reynslu.

Verkefnið, sem er samstarfsverkefni LK og Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, er enn skammt á veg komið og ljóst að ýmislegt getur komið í veg fyrir hugsanlegan útflutning á sæði frá Íslandi.

 

Í því sambandi er mikilvægasti þátturinn vottun Evrópusambandsins á Nautastöðinni hérlendis, en þar sem hér á landi eru svo til engir þekktir smitsjúkdómar í nautgripum, hafa kröfurnar til aðstöðunnar verið aðrar en þekkist innan landa Evrópusambandsins.

 

Þegar hefur verið lagður grunnur að úttekt á Nautastöðinni á Hvanneyri og hefur það verið unnið í góðu samstarfi við Embætti yfirdýralæknis.

 

Í kjölfar úttektar yfirdýralæknis á Nautastöðinni á Hvanneyri, sem og uppeldisstöð nautanna á Suðurlandi, verður lagt mat á hagkvæmni hugsanlegs útflutnings á sæði. Þess er vænst að þeirri hagkvæmniathugun verði lokið á þessu ári og ef vænlegt þykir að flytja út sæðið, verður væntanlega hægt að byrja á því í byrjun næsta árs.