Beint í efni

Sækjum ekki vatnið yfir lækinn

08.12.2018

Um nokkurt skeið hefur mikið verið rætt innan raða bænda um mikilvægi þess að lögð sé áhersla á innlend matvæli í opinberum innkaupum, sem lið í því að styðja við innlenda matvælaframleiðendur og stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda sem til falla við flutning matvæla til landsins. Hefur verið ályktað um málið á Búnaðarþingi og víða kemur þetta upp í samtali milli bænda og stjórnvalda.

Árið 2017 voru flutt inn til landsins 722 kg af matvælum á hvern Íslending. Kolefnisspor þessa flutnings veldur svipaðri losun gróðurhúsalofttegunda og öll starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur eða um 41.000 tonn af CO2 á ári (samantekt Bændablaðsins 11. janúar 2018). Þá á eftir að taka inn í myndina kolefnisspor vörunnar utan flutningsins til Íslands, þ.e. við framleiðslu og flutning fram að umskipun til Íslands. Af þessu er ljóst að það er til mikils að vinna í loftslagsmálum að framleiða sem mest af þeim matvælum sem við neytum hérlendis.

Samstaða um aukna áherslu á innlend matvæli
Það er gleðilegt að heyra að flestir virðast vera sammála um að fara þá leið að leggja meiri áherslu á innlend matvæli, þó vissulega þurfi að finna réttar leiðir svo slíkar áherslubreytingar brjóti ekki í bága við EES-samninginn. Í mínum huga er það útfærsluatriði sem hægt er að leysa, sé viljinn fyrir hendi.

Landbúnaðarráðherra tilkynnti í ræðu sinni við setningu Búnaðarþings í mars sl. að starfshópur yrði settur á fót sem fengi það verkefni að móta tillögur að innkaupastefnu opinberra stofnana á sviði matvæla. „Markmiðið er að lágmarka kolefnisspor matvæla og styrkja með þeim hætti innlenda framleiðslu. Með þessu eru íslensk stjórnvöld að sýna gott fordæmi og sýna í verki vilja til að stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu”. Það er hlutverk starfshópsins að finna leiðir til að auðvelda aðgengi að heilnæmum matvælum, með tilliti til lýðheilsumarkmiða, framleiðsluhátta og umhverfisverndar. Ennfremur að tryggja að neytendur fái nauðsynlegar upplýsingar um þann mat sem þeir neyta.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar setur hún sér skýra stefnu: „Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum” og að „Ríkisstjórnin ætlar að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif”. Þetta rímar ágætlega við þær áherslur sem komið hafa frá bændum og má þar m.a. benda á ályktun af aðalfundi LK frá í vor, þar sem lögð var áhersla á einmitt þessi atriði, ásamt því að uppruni matvara eigi ávallt að vera aðgengilegur fyrir neytendur, hvort sem er í verslunum, mötuneytum eða á veitingastöðum.

Verð ekki meginforsenda innkaupa
Í lok nóvembermánaðar var undirrituð, ásamt fjölbreyttum hópi fagaðila, boðuð á vinnufund með fyrrnefndum starfshópi landbúnaðarráðherra. Fundurinn var vel sóttur en þar var rætt hvað mætti betur fara þegar kemur að opinberum innkaupum á matvælum, allt frá dreifikerfum til matarsóunar. Þar sat ég til borðs með aðilum úr stjórnsýslunni, innkaupastjórum á sveitastjórnarstigi og aðila úr sjávarútvegi, svo það er óhætt að segja að farið var yfir allar hliðar málsins.

Á fundinum kom fram að verð er ekki lengur meginforsenda innkaupa, heldur er horft í auknum mæli til gæða og umhverfisverndar. Í könnun sem gerð var meðal fjölda ríkisstofnana kom m.a. fram að þegar horft er til innkaupa á kjöti virðist íslenskur uppruni skipta mestu máli og skorar þar hærra en aðrir þættir á borð við verð og ákveðnar vottanir. 80% töldu „fremur“ eða „mjög mikilvægt“ að kaupa innlenda framleiðslu umfram sambærilega innflutta vöru.

Veljum vörur með minnsta umhverfisfótsporið
Ljóst er að áhersla á umhverfismál verður þyngri með hverju deginum sem líður og endurspeglaðist það mjög í umræðum á vinnufundinum. Eins höfum við séð aukna umræðu um samspil innlendrar matvælaframleiðslu og minna umhverfisfótspors á Alþingi, en í lok nóvember var m.a. endurflutt þingsályktunartillaga af þingmönnum Framsóknar um vistvæn opinber innkaup á matvöru. Þar er einmitt lögð áhersla á að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að „hátt í 150.000 manns – nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri – eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða”. Þessar tölur sýna hve mikilvægt það er að upprunamerkingar matvæla séu aðgengilegar neytendum í mötuneytum rétt eins og í verslunum. Þar er einnig bent á að ríki og sveitarfélög geta stuðlað að vistvænni matvælaframleiðslu enda „viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra”.

Það hefur sjaldan þótt merki um mikla snilli að sækja vatnið yfir lækinn, ég tala nú ekki um þegar ferðin yfir lækinn hefur skaðleg áhrif á loftslagið og umhverfið í heild sinni. Það ætti því að liggja beint við, að þegar val á milli sömu eða sambærilegra vara er að ræða þá verði varan með minnsta umhverfisfótsporið og sú sem hefur ferðast um stystan veg fyrir valinu. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra, að neikvæðum umhverfisáhrifum sé haldið í lágmarki.

Ritað í Reykjavík í desember 2018
Margrét Gísladóttir
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda