Beint í efni

Sækir kýrnar með flýgildi

31.01.2018

Það hafa líklega flestir heyrt um notkun flýgilda við smölun og björgunarstörf en væntanlega ekki margir heyrt um að flýgildi má einnig nota við smölun á kúm! Af slíkri notkun hefur nýsjálenski kúabóndinn Hayden Fowles afar góða reynslu en hann keypti sér ódýrt flýgildi með myndavél og góðri drægni og notar það svo til þess að fylgjast með kúnum á beit úr háloftunum. Með flýgildinu getur hann auðveldlega séð ef kýr eru í vanda, veikar eða annað slíkt sem mikilvægt er að koma auga á.

Hayden þessi er afar tæknivæddur og er með sjálfvirk hlið sem opnast sjálfkrafa með aðstoð stýriklukku og þetta læra kýrnar á. Á hverjum morgni og síðdegi, þegar komið er að mjöltum, opnast hliðin sjálfkrafa og kýrnar hafa lært á þetta og byrja að dóla sér heim á leið. Hayden sendir fljótlega flýgildið af stað og kannar hvort allar kýrnar séu á leiðinni og ef ekki getur hann rekið þær áfram með því að fljúga flýgildinu nálægt kúnum/SS.