Beint í efni

Sæðið sótthreinsað!

07.06.2013

Undanfarin ár hefur tækninni fleytt fram á sviði kynbóta og reglulega koma fram á sjónarsviðið nýjungar á þessu sviði. Þannig bárust fyrstu fregnir af kyngreiningu á nautasæði fyrir nokkrum árum og er nú undantekningarlítið hægt að fá kyngreint sæði allra helstu afurðakynja nautgripa. Þetta hefur leitt til hreinnar byltingar í framförum. Þá má nefna erfðapróf á nautgripum þar sem arfgerðir eru þekktar strax við fæðingu og með því sparað verulega og kynslóðabil stytt svo um munar. Nýverið var svo kynnt til sögunnar sæði sem hefur lengri líftíma en áður hefur þekkst og leiðir það til betri nýtingar og minni uppbeiðsla.

 

Nú er svo komin enn ein nýjungin en það er nautasæði sem er blandað mótefnum svo tryggt sé að ekki geti borist neinir sjúkdómar með því! Það er norræna kynbótafyrirtækið VikingGenetics sem selur sæði með þessum eiginleikum en íblöndun mótefna í sæðið er að sjálfsögðu gert í samráði og samræmi við allar opinberar kröfur. Með þessu telur fyrirtækið að markaðsmöguleikar þess stóraukist enda opnast nú fyrir sölumöguleika í löndum sem eru laus við helstu nautgripasjúkdóma og gera stangar kröfur um smitvarnir./SS.