Beint í efni

Rússneskir kúabændur þurfa að auka framleiðsluna

19.09.2012

Til þess að tryggja það að Rússar verði sjálfum sér nægir með mjólk og mjólkurvörur í framtíðinni hafa stjórnvöld í Kreml nú ákveðið að koma með aukið fjármagn inn í greinina. Talið er að auka þurfi framleiðsluna um 20% fram til ársins 2020 eða úr 32 milljörðum lítra í 38 milljarða lítra til þess að svara eftirspurninni og Rússar vilja gjarnan framleiða þetta magn sjálfir í stað þess að horfa upp á aukinn innflutning.

 

Jelena Skrynnik, landbúnaðarráðherra Rússlands, hefur í þessu sambandi kynnt áform um að auka styrki til mjólkurframleiðslu um nærri 20,8 milljarða króna. Athygli vekur að styrkirnir verða veittir öllum þeim sem framleiða mjólk í Rússlandi og hafa stjórnvöld tekið sérstaklega fram að bændur frá öðrum löndum eru sérstaklega velkomnir. Þá er jafnframt afar líklegt að vel verði tekið á móti fjárfestum enda hafa stjórnvöldin í Kreml lofað héraðsstjórnum auknu fjárframlagi takist að auka framleiðsluna um 20%. Á móti kemur svo að þar sem ekki tekst að auka framleiðsluna um 20% verður viðkomandi héraðsstjórnum refsað! Land er ódýrt í Rússlandi og afurðastöðvaverð mjólkur svipað og í öðrum löndum Evrópu og því er ekki ólíklegt að einhverjir kúabændur taki sig til og flytji búferlum til Rússlands/SS.