Beint í efni

Rússland: Útlendingar fjárfesta í mjólkurvinnslu

12.04.2017

Eftir að Rússar lokuðu á innflutning frá flestum Vestrænum löndum hér um árið var stöðugur skortur á mjólkurvörum á markaðinum í Rússlandi. Kúabændur í Rússlandi juku því framleiðslu sína verulega og er nú svo komið að landið er aflögufært með ákveðnar mjólkurvörur. Rússar hafa þó ekki mikla reynslu af útflutningi mjólkurvara og því hefur útflutningurinn hafnað hjá fyrirtækjum sem eru í eigu annarra en Rússa.

Eitt af þeim fyrirtækjum, sem hefur hagnast á innflutningsbanninu, er afurðafélagið TH True Milk frá Víetnam. Þetta fyrirtæki hefur þegar byggt upp vinnslustöð í nágrenni við Moskvuborg fyrir alls um 1 milljarð bandaríkjadala eða um 111 milljarða íslenskra króna og nú hefur verið ákveðið að bæta um betur og fjárfesta í vinnslustöð fyrir nærri 200 milljarða íslenskra króna til viðbótar. Þessi vinnslustöð mun verða sérhæfð í vinnslu á lífrænum mjólkurvörum, sem fyrst og fremst verða svo fluttar út úr Rússlandi og til bæði Japan og Kína. Þetta er mikil tíðindi þegar horft til sögu útflutnings mjólkurvara og heimsviðskipta með mjólkurvörur og verður einkar fróðlegt að fylgjast með gengi rússneskra mjólkurvara á alþjóðlegum markaði.

Þar sem framundan eru skírdagur og föstudagurinn langi verður vefurinn næst uppfærður laugardaginn 15. apríl/SS.