Beint í efni

Rússar stórauka styrki til mjólkurframleiðslu

26.05.2015

Nikolai Fyodorov, landbúnaðarráðherra Rússlands, hefur gefið út tilkynningu þess efnis að ríkisstjórnin ætli að auka styrki sína til þarlendrar mjólkurframleiðslu. Alls nemur aukningin nærri 600 milljörðum króna á fimm árum, en fyrstu viðbótarstyrkirnir koma til greiðslu árið 2016. Tilgangur viðbótarstyrkjanna er að styrkja stoðir mjólkurframleiðslunnar með það að markmiði að landið verði óháð innflutningi mjólkurvara í framtíðinni.

 

Erfitt getur verið að setja þessar tölur í samhengi en um nærri tvöföldun á stuðningi er að ræða en hann mun aukast ár frá ári til 2020:um 90 milljarða árið 2016, 112 milljarða árið 2017, 121 milljarða árið 2018, 133 milljarða árið 2019 og 138 milljarða árið 2020.

 

Þá stendur kúabændum í landinu einnig til boða að fá framkvæmdastyrki vegna nýbygginga í ár og næstu tvö ár en framkvæmdastyrkurinn nemur allt að 30% byggingakostnaðar.

 

Árleg mjólkurframleiðsla í Rússlandi er um 30 milljarðar lítra og þrátt fyrir að landið hafi verið lokað fyrir innflutning frá miðju síðasta ári þá jókst framleiðslan þar sáralítið í fyrra eða rétt um 0,1% miðað við árið 2013. Markmið ríkisstjórnarinnar er hins vegar að hægt verði að auka framleiðsluna það mikið að um þrír fjórðu hlutar mjólkurinnar verði innlend árið 2020. Þetta þýðir að auka þarf framleiðsluna um 66,5% á næstu fimm árum. Ætla má að það verði harla erfitt verkefni, ef ekki ómögulegt/SS