Rússar stórauka innflutning á osti
01.02.2011
Árið 2010 reyndist mörgum afurðastöðvum í mjólkurvinnslu í heiminum afar hagfellt fyrir margra hluta sakir, eftir frekar magurt ár 2009. Ein skýringin felst m.a. í því að rússneski markaðurinn hefur tekið afar vel við sér og sér í lagi ostamarkaðurinn þar, sem er gríðarlega stór. Heildarsalan fyrstu tíu mánuði ársins 2010 nam um 680.000 tonnum af osti sem er nærri 20% aukning frá árinu 2009. Rússneskir kúabændur ná einungis að anna hluta þess mikla magns mjólkur sem þarf í ostaframleiðsluna og
eru því nærri helmingur ostanna innfluttir eða um 47%.
Innflutti osturinn kemur víða að úr heiminum en mest frá nágrannalöndunum Hvíta-Rússlandi og Úkraínu en vegna þurrkanna þar síðasta sumar, sem orsökuðu m.a. uppskerubrest á korni, hafa þessi lönd ekki náð að fylgja söluþróuninni eftir. Fyrir vikið hafa skapast í Rússlandi einstakar aðstæður fyrir áhugasama söluaðila á ostum og fyrir vikið hefur mörgum vestur-evrópskum afurðastöðvum nú tekist að koma sér fyrir á markaðinum, nokkuð sem var nánast ógerningur á árum áður.
Til fróðleiks má geta að miðað við framreiknaða sölu á Rússneska markaðinum fyrir allt árið 2010 gæti heildarsalan á osti endað í 816 þúsund tonnum. Til þess að framleiða það magn af osti má ætla að það þurfi u.þ.b. 8.200 milljónir lítra af mjólk. Til samanburðar má reikna út að ef öll mjólkin, sem framleidd var á Íslandi árið 2010, hefði farið í ostagerð þá hefðu íslensku ostarnir einungis náð að fylla í 1,5% af ostamarkaðinum í Rússlandi!