Beint í efni

Rússar loka á Úkraínu

15.11.2012

Rússar hafa nú bannað innflutning á kjöti frá átta úkraínskum fyrirtækjum, en bann þetta er af mörgum talið nýjasta útspil rússneskra stjórnvalda í viðskiptastríði landanna. Reyndar halda þarlend yfirvöld því fram að ástæðan fyrir banninu sé vegna þess að kjöt frá þessum fyrirtækjum standist allt í einu ekki kröfur Rússlands. Um er að ræða mikla hagsmuni fyrir Úkraínu en þessi átta fyrirtæki flytja árlega um 12 þúsund tonn til Rússlands og kjötið verður því falboðið heima fyrir með tilheyrandi verðfalli á markaði og vandamálum í úkraínskum landbúnaði.

 

Eins og áður segir telja flestir sérfræðingar að ekkert sé að hjá umræddum fyrirtækjum og að skýringin felist í því að þetta sé einfaldlega þvingunarleið tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan til þess að draga Úkraínu að samningaborðinu! Fyrr á árinu hitti það einmitt svo undarlega á að sömu lönd fundu einnig eitthvað að innfluttum mjólkurvörum frá Úkraínu og bönnuðu þær. Úkraína hefur nú einnig brugðist við og bannað innflutning landbúnaðarvara frá hinum löndunum þremur/SS.