Rúmlega fjögur þúsund fræddust um sæðistöku!
02.05.2005
Modernus, vefmælingarfyrirtækið sem LK skiptir við, sendi nú um mánaðarmótin upplýsingar um notkun á vef LK í síðasta mánuði. Af helstu niðurstöðum má nefna að 901 innlit átti sér stað þegar bein útsending af aðalfundi LK var. Þessi niðurstaða þætti góð alla jafna, en er þó hjómið eitt á við augljós áhrif fyrirsagnar fréttar á vefnum þann 12. apríl sl. Þá
stóð „Aðstoð vantar við sæðistöku“ og tengdist sú frétt lausu starfi við Nautastöð BÍ á Hvanneyri. Svo virðist sem hérlendar leitarvélar hafi þefað fyrirsögnina uppi vegna orðavals og litu við á vefnum næstu tvo daga 4.100 aðilar sem er met hjá LK! Líkur eru á því að erindi flestra inn á síðuna þessa dagana hafi verið annað en að fræðast um nautgriparækt, sem þó er ekki hægt að útiloka!
Líklega verða áhrifin áþekk nú, vegna fyrirsagnar þessarar fréttar. Þess má geta að meðalfjöldi innlita (fjöldi ólíkra tölva) á síðu LK er um 3-400 á dag.