
Rúmlega 700 bændur mættu til bændafunda
27.01.2017
Nýlokið er bændafundaferð þar sem Bændasamtökin héldu 15 fundi með bændum um allt land. Tólf fundir voru haldnir 9.-11. janúar en þremur varð að fresta vegna veðurs, en þeir voru svo haldnir 16. og 19. janúar. Fundargestir voru alls rúmlega 700 talsins og var aðsókn undantekningalaust góð. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ, sagði að ekki væru tök á að fara á alla staði nú en úr því yrði bætt síðar.
Sigurður sagði meginefni fundanna tvíþætt. „Í fyrsta lagi var rætt um áhrif nýju búvörusamninganna sem tóku gildi um nýliðin áramót, einkum þó reglugerðirnar sem þeim fylgja en þar eru einstök verkefni samninganna útfærð. Í öðru lagi voru breytingar á starfsemi BÍ til umræðu en eins og greint hefur verið frá munu samtökin taka upp félagsgjöld á þessu ári þar sem búnaðargjalds nýtur ekki lengur við.“
Breytingar fylgja nýju samningunum
Margvíslegar breytingar fylgja nýju samningunum að sögn Sigurðar. „Eðlilega var mest rætt um nýju eða verulega breyttu verkefnin, svo sem jarðræktarstuðning, landgreiðslur, nýliðunarstyrki og fjárfestingastyrki í nautgriparækt sem hefjast á þessu ári. Fjárfestingastyrkir í sauðfjárrækt hefjast 2018 og þar var meðal annars nefnt hvort nýta mætti þá til að endurnýja frauðplastseinangrun í gripahúsum sem því miður er enn víða að finna.“
Á fundunum komu fram miklar áhyggjur af stöðunni í sauðfjárræktinni í ljósi þess að afurðaverð lækkaði um 10% í fyrrahaust. Innanlandssala var góð í fyrra en smásöluverð stóð í stað á milli áranna 2015 og 2016. Á sama tíma eru útflutningsmarkaðir erfiðir vegna sterks gengis krónunnar og viðskiptabanns Rússa.
Greiðslumark í mjólk og umhverfismálin á dagskrá
„Í nautgriparæktinni var heilmikið rætt um fjárfestingastuðning en einnig um fyrirkomulag innlausnar á greiðslumarki. Kvótamarkaður lagðist af um áramótin en í staðinn kom innlausn á föstu verði sem verður 138 kr/ltr á árinu 2017. Innleyst greiðslumark verður síðan boðið til sölu á sama verði. Þar af gefst forgangshópum kostur á að kaupa allt að helminginn, en það eru annars vegar nýliðar og hins vegar þeir sem framleiddu 10% eða meira umfram greiðslumark árin 2013-15, þegar kallað var eftir meiri framleiðslu,“ sagði Sigurður. Hann sagði að talsvert hefði verið rætt um umhverfismál, einkum þó kolefnisfótspor landbúnaðarins, mögulegar aðgerðir og tækifæri landbúnaðarins til að marka sér sérstöðu á því sviði. Þar skipti máli að samtök bænda mörkuðu sér skýrari stefnu á því sviði.
Félagsgjöld hjá BÍ
Eins og kunnugt er þá féllu lög um búnaðargjald úr gildi um áramótin og á þessu ári fara samtökin að innheimta félagsgjald. Á fundunum var farið yfir rökstuðninginn að baki þeim gjöldum sem innheimt verða í ár sem verða 42.000 kr. á hvert bú, en því fylgir full aðild fyrir tvo einstaklinga. „Það var farið yfir starfsemi og þjónustu samtakanna og á fundunum kom vel fram að menn töldu afar mikilvægt að Bændasamtökin yrðu áfram öflug, en einnig var rætt um nánari útfærslur á þjónustu við félagsmenn svo sem verðmun á skýrsluhaldsforritum og öðru því sem félagsmönnum stendur til boða. Í febrúar mega félagsmenn eiga von á ítarlegu kynningarbréfi þar sem farið verður yfir þau mál,“ sagði Sigurður.
Nýja ríkisstjórnin til umræðu
Umræður á fundunum mörkuðust nokkuð af nýrri ríkisstjórn sem tók við stjórnartaumunum um sama leyti og fundirnir voru haldnir. „Menn veltu fyrir sér mögulegum fyrirætlunum hennar, en myndun hennar var einmitt að ljúka meðan á fundunum stóð. Enn fremur kom fram að ganga þyrfti harðar fram í að svara fyrir landbúnaðinn, ekki síst í ljósi þeirrar óvægnu umræðu sem hann býr löngum við,“ sagði Sigurður Eyþórsson.