Beint í efni

Rúmlega 500 vöktunarreitir víðsvegar um landið

06.03.2023

Árskýrsla GróLindar fyrir 2022 er komin út undir heitinu Mat og vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum Íslands. Þar kemur fram að eitt af meginverkefnum GróLindar er að setja upp vöktun á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Sumarið 2022 voru lagðir út 188 vöktunarreitir víðsvegar um landið, þannig að alls hafa verið lagðir út 589 reitir, en stefnt er að því að setja upp 1000 vöktunarreiti fyrir árið 2025.

Á vormánuðum 2022 var verkefninu „Landvöktun – Lykillinn að betra landi“, formlega hleypt af stokkunum. Í því verkefni mun landnotendum og almenningi gefast tækifæri til að taka þátt í vöktun á gróður- og jarðvegsauðlindum. Í framtíðinni mun ástandsmat GróLindar byggja á samþættingu ofangreindra mælinga og fjarkönnunar. Unnið var að því á árinu að safna upplýsingum til að bæta kortlagningu beitarlanda, en sú kortlagning verður vonandi uppfærð árið 2023. Sumarið 2022 héldu rannsóknir á atferli sauðfjár í sumarhögum áfram. Ljóst er að mjög miklar upplýsingar liggja nú þegar í þeim gögnum sem hafa safnast og munu þau m.a. gefa okkur innsýn í hvernig sauðfé nýtir beitarlönd sín og hvernig nýtingin breytist m.a. eftir ástandi og veðurfari. Mikil áhersla er lögð á að vinna verkefnið í góðu samstarfi við landnotendur, vísindasamfélagið og opinberar stofnanir. Á árinu hefur verkefnið verið kynnt með fyrirlestrum, í fjölmiðlum og á fundum.