Beint í efni

Rúmlega 100 manns á Fagþingi nautgriparæktarinnar!

27.03.2014

Nú er Fagþingið hafið og er mætingin framar vonum en rúmlega 100 manns sitja þingið. Fagþingið hófst með setningu formanns LK, Sigurðar Loftssonar, og þá ávarpaði Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fundinn og gerði m.a. að máli sínu stöðu íslenskrar nautakjötsframleiðslu og nýtt álit Matvælastofnunar um færar leiðir til innflutnings á nýju erfðaefni til þess að bæta holdanautastofninn og styrkja þar með innlenda framleiðslu. Það álit er í umsagnarferli fagaðila í landbúnaði nú og lofaði ráðherra því að þegar álitin myndu liggja fyrir myndi hann flýta afgreiðslu málsins svo unnt sé að ná sem fyrst að efla nautakjötsframleiðsluna.

 

Þessa stundina flytur Einar Sigurðsson, forstjóri MS, erindi um mjólkurvörumarkaðinn og spá um þróun hans til ársins 2020. Rétt er að minna á að hægt er að fylgjast með Fagþinginu í beinni útsendingu hér á vefnum/SS.