Beint í efni

“Rúlluvél borgar sig alls ekki”

10.05.2010

Í síðustu laugardagsútgáfu Morgunblaðsins birtist viðtal Egils Ólafssonar blaðamanns við Arnar Bjarna Eiríksson kúabónda í Gunnbjarnarholti, fer það í heild sinni hér á eftir.

Arnar Bjarni Eiríksson, sem rekur eitt
stærsta kúabú landsins í Gunnbjarnarholti í
Skeiða- og Gnúpverjahreppi, á enga rúlluvél
og engan áburðardreifara. Hann segir hagstæðara
að láta verktaka sjá um heyskapinn.
Arnar Bjarni keypti á dögunum jörðina
Skáldabúðir og segist með kaupunum vera að
stuðla að hagkvæmari rekstri búsins. Það sé
óhjákvæmilegt að bú á Íslandi stækki ef við
ætlum á annað borð að stunda hér landbúnað.
Arnar Bjarni var árið 1987 19 ára gamall
nemandi að læra trésmíði. Foreldrar hans,
sem bjuggu í Sandlækjarkoti, voru orðnir fullorðnir
og treystu sér ekki til þess að halda
áfram kúabúskap mikið lengur.
„Þá var svartnætti yfir íslenskum kúabúskap
og foreldrar mínir voru ekki að hvetja
mig til að taka við. Ég ákvað engu að síður að
taka slaginn. Ég lét teikna fjós á holti skammt
frá bænum sem heitir Gunnbjarnarholt, en
einu byggingarnar sem voru þar voru fjárhús
sem byggð voru 1955.
Ég byrjaði að byggja fjósið 1988 og þá töldu
margir að þetta gæti orðið okkur ofviða. Ég
vann á sama tíma í Reykjavík við smíðar og
kona mín, Berglind Bjarnadóttir, var við nám í
Kennaraháskólanum. 1. júlí 1990 tókum við við
kúnum, þannig að í sumar verðum við búin að
búa í 20 ár.“
Tók fimm ár að klára fjósið
Það tók Arnar Bjarna fimm ár að klára fjósið.
Hann dregur ekki dul á að þetta hafi verið
erfiður tími, en jafnframt lærdómsríkur. Hann
bjó þá í kjallaranum hjá bróður sínum í Sandlækjarkoti
og vann samhliða búskap sem smiður.
„Það eru engar ýkjur að segja að það hafi
verið þröngt í búi. Við vorum afskaplega
nægjusöm og nýttum okkur það sem við framleiddum.
Það voru engir peningar til. Ég setti
mér eitt mottó á þessum árum og það var að
nafnið mitt birtist aldrei í Lögbirtingarblaðinu.
Á 4-5 ára tímabili urðu allir reikningar
þriggja mánaða gamlir.
Það var mjög erfitt að fá lán á þessum árum.
Það var annað en síðar varð.
Ég fór margar ferðir í Landsbankann og
þegar bankastjórinn sagði: „Ég skal skoða
það,“ þá vissi ég að ég myndi fá eitthvað.
Þegar við vorum búin að búa í 9 ár var staðan
farin að batna og maður var farinn að geta
borgað reikninga á eðlilegum tímum. Þá fór
maður að hugsa um hvert stefndi í landbúnaði
og hvort maður ætti bara að láta tímann líða
og búa bara „fallegum búskap“ eins og sumir
hafa orðað það. Árið 1999 tókum við ákvörðun
um að lengja fjósið um helming og breyta
gömlu fjárhúsi í aðstöðu fyrir geldneyti. Ég
hafði áður farið til Hollands og kynnt mér Lely
mjaltaþjónana. Ég hannaði þá fjósið í samvinnu
við danskan hönnuð þannig að það hentaði
fyrir róbót, en fyrsta skrefið var að breyta
fjósinu í lausagöngu og hugsa það út frá því að
þar yrði róbót.“
Eftir stækkun voru 88 legubásar í fjósinu.
Notast var við gjafakerfi við fóðrun sem
byggðist á því að gefa heilar rúllur. Arnar
Bjarni treysti sér hins vegar ekki til að kaupa
róbót á þessum tíma; taldi það of stóra fjárfestingu.
Hann vann áfram við smíðar, m.a. í
Sultartangavirkjun.
Árið 1997 fór hann á landbúnaðarsýningu í
Danmörku og í framhaldi flutti hann inn fóðurvagn
sem varð upphafið að innflutningi sem
hefur heldur betur undið upp á sig. „Árið eftir
leigði ég mér sendibíl og fór hringinn í kring
um landið með þennan gjafavagn, afrúllara og
fleira sem ég var að potast við að flytja inn.
Þessar vörur kynnti ég á mörgum stöðum. Í
framhaldinu jókst innflutningur smátt og
smátt. Ég fór t.d. að flytja inn steinbita í fjós.
Árið 2000 stofnaði ég Landstólpa og réð fyrsta
starfsmann að fyrirtækinu, Lárus Pétursson
landbúnaðarverkfræðing frá Hvanneyri. Við
tókum okkur fyrir hendur að endurhanna fjós
bænda og breyta þeim í lausagöngufjós þannig
að þau hentuðu fyrir mjaltabás eða fyrir róbót.
Þar byggði ég á því sem ég hafði lært af Hollendingum
og Dananum.
Það varð algjör sprenging í þessu á árunum
2001-2006. Þá vorum við að selja 1000 til 1500
legubása á ári. Ég hef ekki tölu á hvað þetta
eru mörg fjós sem við komum að. Við seldum
um 70 gjafakerfi og alls kyns annan búnað í
fjós.“
Var með 50 manns í vinnu
Haustið 2004 lét Arnar Bjarni loks verða af
því að kaupa róbót í fjósið á Gunnbjarnarholti.
Upphaflega ætlaði hann bara að kaupa einn,
en kýrnar voru hins vegar orðnar það margar
að hann varð að kaupa tvo. Landstólpi stækkaði
hratt á þessum árum, ekki síst eftir að
fyrirtækið hóf innflutning á stálgrindarhúsum
árið 2004. Frá þeim tíma hefur það selt 67 slík
hús og Arnar Bjarni sagðist gera sér vonir um
að 3-4 bættust við á þessu ári.
Þegar mest var voru um 50 manns í vinnu
hjá Landstólpa. Þeim fækkaði eftir að kreppan
skall á, en þeir er um 15 í dag. Í vetur opnaði
Landstólpi verslun í Gunnbjarnarholti sem
býður til sölu allar helstu vörur sem bændur
þurfa til reksturs. Jafnframt opnaði hann
verslun í stórum sendibíl sem keyrir á milli
bænda með rekstrarvörur sem þeir þurfa á að
halda. Arnar Bjarni sagði að í rekstri fyrirtækisins
byggði hann að þeirri þekkingu sem hann
hefði aflað sér með því að reka kúabú.
„Ein af þeim ákvörðunum sem ég tók í upphafi
í rekstri kúabúsins var að leggja alla
áherslu á að fjárfesta í greiðslumarki
(mjólkurkvóta) með það að leiðarljósi að auka
hagkvæmni framleiðslunnar. Þegar við byrjuðum
að búa tókum við við 67 þúsund lítra
kvóta og hann hefur tífaldast á 20 árum.
Ég keypti hins vegar lítið af heyvinnutækjum,
en hef alltaf notað verktaka mjög mikið.
Ég á í dag tvær dráttarvélar, eina sláttuvél,
eina snúningsvél, eina rakstrarvél og einn
rúlluvagn í félagi við bróður minn. Ég á ekki
rúlluvél og engan áburðardreifara. Það eru
menn á bæjum hér í kring sem sjá um að bera
á og rúlla fyrir mig.
Sumum finnst dýrt að borga verktökum fyrir
að heyja, en það kostar líka mikið að eiga þessi
tæki. Þetta eru tæki sem eru notuð 60-100
vinnustundir á ári. Ég er búinn að margreikna
þetta, en kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að
það borgi sig ekki að eiga rúlluvél. Með þessu
fyrirkomulagi næ ég líka að heyja miklu meira
á skömmum tíma því ég er kannski með þrjár
rúlluvélar í vinnu á sama tíma í staðinn fyrir að
vera einn að gutla með eina rúlluvél.“
Búin eiga eftir að stækka
Kúabúum hefur fækkað og þau stækkað hér
á landi á síðustu árum. Arnar Bjarni sagðist
vera sannfærður um að sú þróun ætti eftir að
halda áfram. „Ég tel að bú á Íslandi eigi eftir að
stækka umtalsvert á næstu árum. Þetta er ekki
spurning um hvort okkur líkar betur eða verr
við þessa framtíðarsýn. Krafa markaðarins er
um ódýrari matvæli og eina leiðin til að bregðast
við því er að auka hagkvæmni framleiðslunnar
og ein leiðin til þess er að stækka einingarnar.
Þetta snýst um það hvort við ætlum að
reka hér áfram landbúnað eða ekki. Það verður
enginn landbúnaður hér ef vörurnar sem við erum
að framleiða eru of dýrar. Þá verða þær
bara fluttar inn. Málið er ekki flóknara en það.“
Arnar Bjarni mótmælir fullyrðingum um að
stærstu búin hér á landi séu verksmiðjubú og
bendir á að stærstu íslensku búin séu ekki enn
búin að ná meðalbúinu í Danmörku. „Ég er að
reka fjölskyldubú. Ég fer í fjósið kvölds og
morgna. Ég var að vísu með fjósamann þegar
mest var að gera hjá Landstólpa. Þetta er enn
fjölskyldubú þrátt fyrir stærðina, en þegar
tækninni fleygir svona fram þá verður framleiðslugeta
fjölskyldubúanna miklu meiri.“
Arnar Bjarni sagði að það sem hann væri að
gera í rekstri kúabúsins í Gunnbjarnarholti
væri að búa reksturinn undir samkeppni frá útlöndum.
Búin sem skulda minnst og eru rekin
með hagkvæmustum hætti ættu mestu möguleika
í slíku umhverfi.
„Ég horfi auðvitað til þess að forfeður mínir
hafa búið hér síðan 1785. Við hjónin eigum fimm
börn. Vonandi vill eitthvert þeirra taka við af
okkur en til þess þarf rekstur búsins að vera
þannig að hann sé lífvænlegur.“
Það er orðið nokkuð algengt að bændur séu í
launaðri vinnu með búrekstri. Það hefur hins
vegar oft leitt til þess að búskapurinn hefur
smátt og smátt orðið afgangs og jafnvel stuðlað
að því að menn hafa hætt búskap. Arnar Bjarni
er ekki hræddur um að það gerist í
Gunnbjarnarholti. „Ég er fyrst og fremst kúabóndi.
Þessi rekstur sem ég er í núna er tímabundið
verkefni hjá mér.“
Arnar Bjarni er eindreginn fylgismaður þess
að flutt verði til landsins nýtt kúakyn. Samanburðurinn
við erlend kyn sé afar óhagstæður.
„Með nýju kúakyni væri meðal annars hægt að
bæta nýtingu á mjaltaþjóninum um helming.
Það er hægt að ná um 400 þúsund lítrum á róbót
úr íslenskum kúm. Þær allra bestu fara í 450
þúsund lítra en önnur kyn gefa auðveldlega 700
þúsund lítra á róbót. Ef það á að halda áfram
með þetta íslenska kyn verður að vera pólitískur
vilji fyrir því að íslenskar mjólkurvörur séu
mun dýrari en innfluttar vörur. Ég efast um að
þeim pólitíska vilja sé hægt að ná fram. Um leið
og þrengir að þá kaupir fólk það ódýrasta ef
vörurnar eru sambærilegar að gæðum.“ 

 

Verðið á Skáldabúðum þolir alla skoðun

„Arnar Bjarni keypti í vor jörðina Skáldabúðir,
en þau kaup hafa verið í fréttum í kjölfar
viðtals við Sigurgeir Runólfsson bónda í
Morgunblaðinu.
Arnar Bjarni sagði að kaupin á Skáldabúðum
væru hluti af áframhaldandi uppbyggingu
búsins í Gunnbjarnarholti. Hann sagði
að innan tveggja til þriggja mánaða ætlaði
hann að flytja kýrnar og róbótinn frá
Skáldabúðum og koma þeim fyrir í
geldneytahúsi í Gunnbjarnarholti. Fjósið á
Skáldabúðum yrði eingöngu notað undir
geldneyti. „Ég ætla mér síðan á næstu sex
til átta árum að byggja nýtt fjós í Gunnbjarnarholti
sem verður hannað fyrir fjóra
róbóta.“
Í viðtalinu við Sigurgeir hélt hann því
fram að verðið á Skáldabúðum væri lágt.
Arnar Bjarni sagðist alls ekki geta tekið
undir það. „Ég hef heyrt það haft eftir
Magnúsi Leopoldssyni fasteignasala að
jarðaverð hafi lækkað um 20% frá hruni. Ég
bauð vorið 2008 210 milljónir í jörðina. Það
stendur 150 milljónir í kaupsamningnum
sem ég gerði í apríl sl. en það þarf að hafa í
huga að inni í kaupsamningnum er yfirtaka
á skuldum til viðbótar við samningsupphæðina.
Í eldra tilboðinu voru tæki sem eru metin
á 23-25 milljónir, en þau tæki eru ekki
inni í sölusamningnum. Því má segja að
sambærileg verðlagning á jörðinni nú væri
183 milljónir sem er um 14% lægra verð en
ég bauð árið 2008.
Refsstaðir í Borgarfirði eru að seljast á
liðlega 230 milljónir. Greiðslumarkið þar er
500 þúsund lítrar (300 þúsund á Skáldabúðum),
tveir mjaltaþjónar, glænýtt fjós og
þokkalegt íbúðarhæft íbúðarhús og mikil
ræktun þótt landið sé ekki gott og mun fleiri
nautgripir. Verðið fyrir Skáldabúðir er því
talsvert hærra að mínu mati en fyrir Refsstaði.
Ég lít því svo á að verðið á Skáldabúðum
þoli alla skoðun. Þess vegna sárnar mér
auðvitað þegar reynt er að gera þessi kaup
tortryggileg með slúðri sem á sér enga stoð
í raunveruleikanum en mér þykir jafnframt
vænt um að seljandinn telji sig ekkert eiga
sökótt við mig enda þótt hann sé ósáttur við
bankann sinn vegna þessa máls.“
Arnar Bjarni sagðist ekki hafa sett neinn
þrýsting á Sigurgeir að selja sér jörðina.
Hann sagðist hafa verið tilbúinn til að falla
frá bindandi tilboði ef Sigurgeir gæti leyst
sín mál með öðrum hætti. Hann sagðist hins
vegar ekki hafa verið tilbúinn til að láta tilboðið
ganga til þriðja aðila“.