
Rúlluplast hækkar um 25-30% á milli ára
09.06.2008
Bændablaðið hefur fylgst með verði á rúlluplasti síðustu vikur og mánuði. Söluaðilar drógu það lengi að gefa út verð og kenndu um miklum gengissveiflum og verðbreytingum erlendis. Eins og kunnugt er lækkaði úrvinnslugjald á rúlluplasti um síðustu áramót úr 25 kr. á kg niður í 3 kr. Það er mál manna sem blaðið hafði samband við að sú verðbreyting, sem nemur um 600 krónum á hverja meðalplastrúllu, hafi þurrkast út vegna verðhækkana erlendis. Ef miðað er við algengt verð í fyrra sem var á bilinu 6.600-7.700 kr. á hverja plastrúllu er verðbreyting á milli ára á bilinu 25-30%. Nær öll viðskipti með rúlluplast eru gerð í evrum en síðustu 12 mánuði hefur gengi hennar styrkst um 40% gagnvart íslensku krónunni. Samkvæmt þessum útreikningum má draga þá ályktun að mikil samkeppni á rúlluplastsmarkaðnum hafi orðið til þess að halda aftur af söluaðilum í verðlagningu þrátt fyrir gríðarlega óhagstæða gengisþróun, olíuhækkanir á heimsmarkaði (plastið er að stórum hluta olíuafurð) og nokkra verðbólgu hér innanlands. Niðurfelling úrvinnslugjalds hefur einnig sitt að segja.
Útsöluaðilar bjóða nokkuð misjöfn greiðslukjör og misháa afslætti. Þá er greinilegt að hjá sumum umboðum er samið sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig. Blaðið hefur heimildir fyrir því að söluaðilar hafi gefið tilboð í mikið magn sem innifeli hærri afsláttarprósentu en kemur fram í meðfylgjandi töflu. Það er því full ástæða fyrir bændur að gera verðsamanburð.
Verðkönnun Bændablaðsins á rúlluplasti hjá söluaðilum 4.- 5. júní 2008 - pdf
/TB
Útsöluaðilar bjóða nokkuð misjöfn greiðslukjör og misháa afslætti. Þá er greinilegt að hjá sumum umboðum er samið sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig. Blaðið hefur heimildir fyrir því að söluaðilar hafi gefið tilboð í mikið magn sem innifeli hærri afsláttarprósentu en kemur fram í meðfylgjandi töflu. Það er því full ástæða fyrir bændur að gera verðsamanburð.
Verðkönnun Bændablaðsins á rúlluplasti hjá söluaðilum 4.- 5. júní 2008 - pdf
/TB