Beint í efni

Royal Highland Show hefst í dag

23.06.2011

 

Hin heimsþekkta skoska landbúnaðarsýning Royal Highland Show hófst í dag og stendur til og með sunnudags. Árlega sækja þessa sýningu fjölmargir gestir enda margt að sjá og skoða. Þannig eru í ár 1.000 nautgripir á sýningunni, 1.500 kindur, 3.000 hross, 100 geitur og meira en 500 alífuglar en allir þessir gripir eru að keppa um ýmiskonar verðlaun bæði fyrir útlit, gerð og hæfileika (hross).

 

Þema sýningarinnar í ár snýr að ull og ullargæðum og munu gestir bæði geta fylgst með rúningskeppni, keppni í frágangi ullar, tískusýningu með ullarfatnað, auk þess sem ull er gert hátt undir höfði á fjölmörgum af hinum 1.000 sýningarbásum.

 

Í ár er búist við að um 180 þúsund manns sæki sýninguna heim. Eins og oft áður mun fjöldi Íslendinga sækja sýninguna, m.a. hópur á vegum GJ Travel sem mun auk heimsóknar á sýninguna ferðast um Skotland og heimsækja skoska bændur og rannsóknarstöð í sauðfjárrækt svo dæmi sé tekið/SS.

 

Nánar má fræðast um sýninguna hér: www.royalhighlandshow.org