Beint í efni

Rót frá Syðri-Bægisá yfir tonn í framleiðslu verðmætaefna!

14.03.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir febrúar 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum. Alls komu 606 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 95% sem telst afar gott. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.532 eða 37,2 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa. Í febrúar í fyrra var meðalfjöldinn heldur hærri eða 38,0 árskýr/skýrsluhaldshafa.

 

Þegar horft er til meðalafurðanna kemur niðurstaðan ekki verulega á óvart miðað við fyrri mánuði en meðalafurðirnar nú reiknast 5.295 kg og eru því loks að hækka á ný. Próteinhlutfallið var 3,96 og fituhlutfallið 4,20. Sé horft til

sambærilegra niðurstaðna í febrúar í fyrra voru meðalafurðirnar þá 5.116 kg, próteinhlutfallið 3,40 og fituhlutfallið 4,20. Afurðirnar eru því að aukast frá því fyrir 12 mánuðum um 3,5%, sem er mjög ánægjulegt, en framleiðsla verðmætaefna nær ekki að fylgja magninu eftir og nemur aukningin þar 3,0%.

 

Samtals reiknast nú 16 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er fækkun um eitt bú frá því í janúar.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru á bænum Hraunhálsi (26,8 árskýr) en þar var meðalnytin 7.909 kg með 4,88% fitu og 3,39% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 654 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru sem fyrr í Kirkjulæk 2 (43,0 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.653 kg með 4,16% fitu og 3,47% prótein og magn verðmætaefnanna því að jafnaði 584 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (103,5 árskýr), en þar var meðalnytin 7.748 kg með 4,04% fitu og 3,43% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 579 kg.

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er nú ný í efsta sæti en það var kýrin Rót frá Syðri-Bægisá með 12.889 kg með 3,52% próteini og 4,67% fitu og verðmætaefnin því alls 1.056 kg en slík framleiðsla verðmætaefna er einstök í íslenska kúastofninum.

 

Fram kemur í yfirliti BÍ að 7 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg, þar af tvær yfir 12 þúsund kg.

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér.