Beint í efni

Rómantík kotbóndans

13.11.2007

Böðvar Guðmundsson rithöfundur var að senda frá sér nýja bók „Sögur úr Síðunni“. Sögusvið bókarinnar er augljóslega Hvítársíða þar sem Böðvar ólst upp um miðja síðustu öld. Skáldið mætti í viðtal í bókmenntaþátt Egils Helgasonar
fyrir skömmu og Egill spurði Böðvar m.a. hvort hann sæi eftir
þessum tíma sem bókin fjallar um. Böðvar sagði að þetta hefði verið gott og skemmtilegt mannlíf, en tók jafnframt fram að hann sæi ekki eftir kotbúskapnum sem þetta mannlíf byggðist á. Sjálfur var ég í sveit í Hvítársíðu í kringum 1970 og get verið
Böðvari sammála um að mannlífið í Síðunni var gott og skemmtilegt. Á þeim tíma hugsaði ég ekki mikið um að þarna væru kotbýli, en það er hins vegar augljóst að þarna
var stundaður kotbúskapur eins og alls staðar í sveitum landsins. Þarna bjuggu bændur með innan við 300 kindur og 12 beljur. Þetta voru menn sem höfðu aldrei farið til útlanda og tóku sér aldrei frí. Ef menn höfðu fjárhagslegt svigrúm
til nokkurs hlutar var það svigrúm notað til að kaupa nýjan
traktor eða heyvinnuvél. Nú má spyrja, er þessi kotbúskapur
liðinn undir lok? Því fer fjarri. Hann hefur vissulega breyst. Hið líkamlega strit er ekki eins mikið og fyrrum, en kindurnar
eru ennþá 300 og kýrnar eru kannski orðnar 24. Sú breyting
hefur þó orðið á að í búskap er núna allstór hópur manna sem
hafnar kotbúskapnum. Þetta eru menn sem vilja vera með mun
stærri bú en feður þeirra. Þetta eru velmenntaðir menn sem hafa kynnt sér nýjungar í búskap erlendis. Þessir bændur líta á búskap eins og hvern annan fyrirtækjarekstur. Þeir sætta sig ekki við sömu kjör og eldri kynslóð bænda.

Á að varðveita gamla tímann?
Þeir eru ófáir Íslendingarnir sem hafa verið í sveit og rekið kýr
í haga. Fyrir flesta var þetta skemmtilegur tími. Margir virðast
hins vegar ekki bara vilja varðveita þennan tíma í minningunni
heldur leggja áherslu á að varðveita sveitirnar eins og þær voru í gamla daga. Lögð er áhersla á að búin megi ekki verða of stór,
bændum megi helst ekki fækka og að bændur eigi að nota íslenskar kýr líkt og alltaf hafi verið gert hér á landi. Talsmenn þessarar stefnu eru hins vegar dæmdir til að tapa og þeir sem tala fyrir henni eru ekki aðeins að mæla fyrir gamla kotbúskapnum heldur um leið að eyðileggja fyrir framtíðarmöguleikum landbúnaðarins. Til að rökstyðja
þessa fullyrðingu er nauðsynlegt að skoða málið í samhengi við þær kröfur sem gerðar eru til landbúnaðarins í dag. Í mörg ár hefur verið uppi hörð krafa um að landbúnaðurinn framleiði ódýrari matvæli og einnig að neytendur eigi kost á að kaupa innfluttar landbúnaðarvörur. Þó að margir stjórnmálamenn
hafi tekið undir þessar kröfur hafa stjórnvöld þó aðeins opnað fyrir mjög takmarkaðan innflutning á landbúnaðarvörum.
Það er hins vegar alveg ljóst að þessi krafa um að heimila innflutning á landbúnaðarvörum á eftir að styrkjast á næstu árum og næsta kynslóð stjórnmálamanna sem á eftir að stjórna landinu mun taka meira tillit til hennar en sú kynslóð stjórnmálamanna sem stjórnað hefur landinu fram til þessa. Þegar búið er að opna fyrir innflutning munu íslenskir bændur standa frammi fyrir tveimur kostum, að tapa markaðshlutdeild eða lækka verðið. Báðir kostirnir þýða verri kjör bænda. Eina leið landbúnaðarins til að standast samkeppnina við innfluttar vörur er að nýta sér alla möguleika á hagræðingu í greininni. Leiðirnar til þess eru margar, en það sem skiptir líklega mestu máli er að stækka búin og kynbæta kúakynið með innfluttu erfðaefni líkt og gert hefur verið í svínarækt og kjúklingarækt hér á landi. Til þess að þetta megi verða verður landbúnaðurinn að hafa sama frelsi til athafna og aðrar atvinnugreinar. Hvað myndu menn í sjávarútvegi segja ef þeir mættu aðeins nota íslenskar fiskvinnsluvélar og íslensk skip? Hvað myndu stjórnendur bankanna segja ef stjórnvöld hefðu lagt þá kvöð á bankakerfið að það mætti einungis ráða Íslendinga í vinnu eða að íslensku bankarnir mættu bara eiga viðskipti í Danmörku og Bretlandi vegna þess að þannig var þetta á 19. öld og framan af 20. öld? Halldór Blöndal, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sagði í grein í Morgunblaðinu nýverið: „Blómlegur landbúnaður er hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga og falleg býli um sveitir landsins gleðja augað.“ Hann segist ekki geta „fellt [sig] við að skipt sé um kúakyn fyrir sýndarhagnað“. Guðni Ágústsson, sem tók við af honum, hefur lýst svipuðum viðhorfum. Þau byggjast á því að varðveita það gamla og standa gegn kröfum sumra bænda sem vilja aukið frelsi til að geta hagrætt meira í atvinnugreininni. Það kann vel að vera að þessi viðhorf eigi eftir að ráða ferðinni hjá stjórnvöldum enn um sinn. Það versta við þessi viðhorf er að þau munu líklega ná að draga máttinn úr öflugustu bændunum. Hættan er sú að þegar samkeppnin skellur á standi íslenskir bændur varnarlausir með óhagkvæman rekstur. Þá mun þeir ungu og kraftmiklu bændur, sem hafa verið að byggja nýju fjósin, selja auðmönnum jarðir sínar og snúa sér að öðru. Þá verða bara gamlir kotbændur eftir í greininni með sínar 24 landnámskýr og 300 kindur. Af hverju vilja stjórnmálamenn vera að skipta sér af því hvað búin eru stór og hvers konar kýr bændur eru með í fjósum sínum? Er ekki nóg fyrir þá að stjórna því hversu mikla mjólk bændur mega framleiða? Þurfa þeir líka að stjórna því hvernig hún er framleidd?

 

Egill Ólafsson

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. nóvember sl. og er birt á naut.is með góðfúslegu leyfi höfundar.