Risa yfirtökutilboð í afurðastöð!
04.05.2011
Undanfarna mánuði hefur verið hægt að fylgjast með yfirtökutilburðum hins franska afurðafyrirtækis Lactalis á hinu þekkta ítalska fyrirtæki Parmalat. Naut.is hefur áður fjallað um báðar þessar afurðastöðvar, en eftir stærsta gjaldþrot Evrópu þegar Parmalat var rekið í þrot hafa ýmsir sýnt félaginu áhuga. Margir fjárfestu í rústum gjaldþrota félagsins og nú er svo komið að átök um eignarhald eru á lokastigi.
Nú hefur Lactalis lagt fram yfirtökutilboð til allra hluthafa í Parmalat og hefur það skapað óróleika í Ítalíu, hvar heimamenn eru ekki sérlega hrifnir af þessum nágrönnum sínum. Ítölsku bændasamtökin hafa nú farið fram á það við þarlend stjórnvöld að koma í veg fyrir þessa erlendu yfirtöku á ítalska mjólkurrisanum, sem og yfirhöfuð kaup útlendinga á öðrum ítölskum fyrirtækjum í landbúnaði! Um þetta eru þó deildar meiningar en þeir 800 kúabændur sem leggja inn mjólk hjá Parmalat virðast vera áhugasamir um að fá Frakkana í lið með sér, enda upplifað margt s.s. áðurnefnt gjaldþrot.
Á undan lögunum
Lactalis á í dag 29% hlut í Parmalat og eru einungis tvær vikur síðan félagið eignaðist þetta stóran hlut, þegar það keypti út danskt-sænskt fjárfestingarfélag. Það bjóst hinsvegar enginn við því að Lactalis myndi strax koma með yfirtökutilboð í félagið en það gerðist og er yfirtökutilboðið engin smánarupphæð: 750 milljarðar íslenskra króna og hafa aðrir hluthafar eina viku til þess að ákveða sig!
Ástæða þess að Lactalis fór af stað með tilboð sitt svo fljótt er talin felast í boðuðum lögum í Ítalíu þar sem bregða á fæti fyrir erlenda fjárfestingu í formi uppkaupa á þarlendum fyrirtækjum í landbúnaði. Forsvarsmenn bænda í Ítalíu vilja meina að of mörg af mikilvægustu fyrirtækjunum í landbúnaði séu þegar í eigu útlendinga og það sé óheppileg þróun/SS.
Hér má lesa frétt naut.is um gjaldþrot Parmalat.