Beint í efni

Ríkisstjórnin hvetur banka til að frysta myntkörfulán

22.10.2008

Í máli ráðunauta sem sinna fjármála- og rekstrarráðgjöf fyrir bændur hefur komið fram að mikilvægt sé að hafa þann möguleika að geta fryst lán. Með því móti ættu rekstraraðilar að hafa betra svigrúm til þess að mæta þeim erfiðleikum sem að steðja vegna efnahagslægðarinnar. Nú hefur ríksstjórn Íslands beint þeim tilmælum til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti afborganir og vexti af myntkörfulánum þar til ró kemst á gjaldeyrismarkaðinn, sérstaklega vegna húsnæðismála, komi fram ósk þar að lútandi frá skuldara. Þetta kemur fram í auglýsingu frá viðskiptaráðuneytinu og birt er í dagblöðum.

Þeim tilmælum er jafnframt beint til bankanna að þeir krefji skuldara ekki um auknar tryggingar né láti skuldara undirgangast nýtt greiðslumat vegna þessara tímabundnu frystingar á myntkörfulánum.

Fjármálaráðherra mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til breytingar á lögum um stimpilgjöld, þar sem lagt er til að skjöl sem gefin eru út á tímabilinu frá gildistöku laganna til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga verði undanþegin greiðslu stimpilgjalda.

Í auglýsingu ráðuneytisins kemur fram að í ljósi framangreinds sé athygli skuldara hjá hinum nýju ríkisbönkum vakin á því að þeir geti óskað eftir frystingu á myntkörfulánum, óháð efnahag sínum.

Í tilmælunum var því einnig beint til ríkisbankanna að þeir bjóði viðskiptavinum sínum í greiðsluerfiðleikum upp á sams konar úrræði og Íbúðalánasjóður hefur gert, sbr. www.ils.is

Óskum hefur verið beint til annarra fjármálafyrirtækja að veita sömu fyrirgreiðslu.