Beint í efni

Ríkasti maður Afríku í mjólkurframleiðslu!

25.08.2017

Aliko Dangote, ríkasti maður Afríku, er nú sagður hafa áhuga á því að fjárfesta í mjólkurframleiðslu í Nígeríu. Alls ætlar hann að fjárfesta fyrir 85 milljarða íslenskra króna í uppbyggingu mjólkurframleiðslu en áætlanir hans gera ráð fyrir að koma upp búi með 50 þúsund kúm. Aliko ætti að hafa efni á framkvæmdinni enda er auður hans metinn á um 1200 milljarða íslenskra króna, en Dangote ættin hefur verið sú auðugasta í Nígeríu og Afríku í áratugi.

Ef áætlanir Aliko ganga eftir mun mjólkurframleiðsla hefjast árið 2019 og er áætluð árleg framleiðsla 500 milljónir lítra sem sárlega vantar á markaðinn í Nígeríu enda er landið stórinnflytjandi á mjólkurvörum. Í dag nemur innflutningur um 70% af allir sölu mjólkurvara í landinu og er verðmæti þess innflutnings um 140 milljarðar íslenskra króna. Því er ekki undarlegt að heimamenn hafi áhuga á að efla mjólkurframleiðslu og –vinnslu landsins/SS.