Beint í efni

REMA 1000 stendur með bændum

25.08.2015

Við höfum undanfarið greint frá því að afurðastöðvaverð til kúabænda víða um heim er nú með því lægsta sem verið hefur í áraraðir. Margir framleiða mjólk nú með tapi og stefnir í óefni víða en nú hefur norska verslunarkeðjan REMA 1000, sem er með verslanir í mörgum löndum, komið með áhugaverða lausn. Verslunin hefur hækkað mjólkurverð sitt um nærri 10 krónur í verslunum sínum í Danmörku og rennur hækkunin óskipt beint til danskra bænda sem búa nú um stundir við afar lágt afurðastöðvaverð.

 

Viðskiptavinum verslunarinnar er bent á afhverju verðið sé hærra á mjólkinni í verslunum REMA 1000 en hjá öðrum og vonast forsvarsmenn verslunarinnar til þess að frumkvæðið smiti út frá sér og aðrar verslanir taki sama skref. Ástæða þess að REMA 1000 tekur þetta skref segja forsvarsmenn verslunarkeðjunnar einfaldlega felast í því að þeir óttist að ekki verði hægt að útvega nægt magn danskra mjólkurvara í framtíðinni ef verðið hækkar ekki til bænda. Danskir neytendur vilji fyrst og fremst danskar mjólkurvörur og því sé mikilvægt að verslunin geri sitt til þess að tryggja framboðið á þeim/SS.