Rekstrarstöðvunartrygging Sjóvá
29.05.2006
Landssambandi kúabænda hafa borist kvartanir frá bændum vegna rekstrarstöðvunartrygginga sem Sjóvá býður þessa dagana, án þess að bændur hafi beðið um slíkt. Fyrirtækinu hefur sérstaklega verið talið það til vansa að senda greiðsluseðla án útskýringa vegna þessara trygginga.
Þá hefur bændum borist, í kjölfar greiðsluseðlanna, bréf dags. 26.5 2006, þar sem fram kemur að tryggingu þessari sé „ætlað að greiða þann tekjumissi sem fylgir í kjölfar þess, að mjólkurframleiðsla hefur stöðvast eða dregist saman vegna þess að kýr hafa drepist af völdum tjóns sem brunatrygging nær til“. Tryggingin dekkar því ekki rekstrarstöðvun sem verður af öðrum völdum en bruna.
Vinnubrögð af þessu tagi verða að teljast mjög ámælisverð, þar sem greiðsluseðlar eru víða sendir beint til greiðsluþjónustu viðskiptabanka og eru greiddir þar, án þess að viðskiptamaður komi nærri. Þá má og benda á, að tjón af þessum toga eru a.m.k. að hluta bótaskyld úr Bjargráðasjóði, sem bændur hafa greitt í svo áratugum skiptir.