Beint í efni

Reglur um flutning lifandi nautgripa í Danmörku og Noregi

15.01.2008

Í ljósi mikillar umræðu meðal kúabænda um reglur þær er hamla flutningi á lifandi nautgripum milli sk. varnarhólfa hér á landi, hefur LK skoðað þær reglur sem um þessi mál gilda í nágrannalöndunum, Noregi og Danmörku.

 

Ekki er annað að sjá í Danmörku en að þar hafi nautgripir fullt frelsi til að ferðast hvert sem er innan landsins, án takmarkana. Einu reglurnar sem um flutningana gilda lúta að hámarks flutningatíma á bíl, hvíld, fóðrun og brynningu. Flutningstími á bílum hefur reyndar verið mjög mikið í umræðu þar í landi upp á síðkastið, vegna mála sem upp hafa komið og snerta óhóflega langan flutningstíma gripa sem fluttir hafa verið úr landi, t.d. til Suður- eða Austur-Evrópu.

Í Danmörku eru ekki í gildi opinberar reglur um útrýmingu á garnaveiki og sá sjúkdómur er ekki tilkynningarskyldur. Hann er að finna á 80-85% kúabúa og í 15-20% af fullorðnum kúm. Viðurkennt er að sjúkdómurinn dreifist helst milli búa við kaup og sölu gripa, en það metið sem svo að hagsmunirnir af frjálsum flutningum séu margfalt ríkari en að hamla gripasölu og draga þannig eitthvað úr útbreiðslu garnaveiki. Einnig er það metið sem svo að þrátt fyrir að kýr beri garnaveiki, þá sé framleiðslugeta þeirra svo mikil, að ekki sé verjandi að fella þær einungis af þeim sökum.

 

Það má þó ekki skilja það svo, að ekkert sé gert til að hamla móti veikinni. Allar aðgerðir í þá átt lúta að brjóta smitleiðir milli kálfanna og eldri gripa á búinu. Finna má ýtarlega lýsingu á þeim vörnum á heimasíðunni www.paratuberkulose.dk.

 

Í Noregi er staðan gerólík. Þar hefur garnaveiki ekki orðið vart í nautgripum síðan árið 1998, þegar hún barst með innfluttum, lifandi gripum og hún hefur ekki fundist í sauðfé síðan árið 1967. Reglur um sjúkdóminn eru engu að síður til staðar. Hvað varðar nautgripi er landinu ekki deilt upp í sóttvarnarsvæði en heimild er til þess í lögum. Slíkar reglur gilda um sauðfé, það er ekki heimilt að flytja milli fylkja án leyfis yfirvalda.

 

Megin hugsunin í sóttvörnum er að geta einangrað einstök bú ef þar koma upp sjúkdómar í búfé. Líkt og hér á landi er sjúkdómum skipt í flokka eftir alvarleika, þar sem A-sjúkdómar eru þeir alvarlegustu, síðan B- og C-. Garnaveiki er B-sjúkdómur. Dæmi um A-sjúkdóm er gin- og klaufaveiki. Til að staðfesta að garnaveiki sé á búi, þarf að rækta bakteríur úr garnasýnum eða saur gripanna. Blóðpróf dugar ekki til staðfestingar.

 

Gripum sem sannarlega eru með garnaveiki skal slátrað og fást bætur fyrir. Einnig fást bætur fyrir ef búfjáreigandi velur að fella alla hjörðina. Sé svo gert, þurfa að líða 18 mánuður áður en nautgripir mega aftur vera á búinu. Á búum þar sem garnaveiki greinist en velja að fella bara sýkta gripi gilda ákveðnar verklagsreglur. Saursýni skal taka úr öllum gripum eldri en 24 mánaða á 6-8 mánaða fresti og skal fella gripi sem sannarlega bera garnaveiki. Einnig skal taka garnasýni úr öllum gripum sem slátrað er. Búið telst ósýkt ef ekki hafa fundist merki um garnaveiki í 5 ár.

 

Hér á landi eru bú á garnaveikilista í 10 ár.

 

Heimildir:

 

Leiðbeiningar um útrýmingu garnaveiki og Salmonella Dublin í  Danmörku.

 

Reglur um varnir gegn garnaveiki í Noregi.

 

Norska matvælalöggjöfin.

 

Björn Guldbrandsen, stöðvardýralæknir á Store Ree, tölvupóstur 4. janúar 2008.