Beint í efni

Reglugerð um sjúkdómaskráningar og lyfjanotkun

12.04.2012

Þann 27. mars sl. tók gildi reglugerð nr. 303/2012 um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun.

Reglugerð þessi fjallar um rafræna skráningu dýrasjúkdóma, dýralæknisaðgerða og meðhöndlun dýra með lyfseðilsskyldum lyfjum. Tilgangurinn er að stuðla að bættu eftirliti með heilsufari dýra og heilnæmi afurða og leggja grunn að auknum forvörnum gegn sjúkdómum í dýrum.

Skipulögð sjúkdómaskráning hefur verið mjög lengi í bígerð og hefur LK hvatt til að hún verði tekin upp, síðast í ályktun aðalfundar LK 2005, þar sem sagði „Aðalfundur LK haldinn á Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005 átelur þann seinagang sem orðið hefur á framkvæmd sjúkdómsskráningarkerfi nautgripa. Bendir fundurinn á að gagnagrunnur nautgripasjúkdóma innan einstaklingsmerkingakerfisins MARK verði best tryggður með rafrænni sjúkdóms og lyfjaskráningu dýralækna á vettvangi. Skorar fundurinn á Landbúnaðarráðuneytið og embætti yfirdýralæknis að finna leiðir til að fjármagna þetta verkefni.“ Slík skráning viðgengist mjög lengi í nágrannalöndunum og nýst bændum vel, bæði í bústjórn og kynbótastarfi. Því er afar mikilvægt að vel takist til með framkvæmd skráningarinnar og að hún verði sem einföldust og ódýrust í framkvæmd. Sem dæmi hefur slík sjúkdómaskráning viðgengist í Noregi síðan 1978 og er almennt viðurkennt að hún sé grunnurinn að þeim mikla árangri, sem náðst hefur í ræktun á hraustari gripum þar í landi á undanförnum árum./BHB  

 

Reglugerð nr. 303/2012