Beint í efni

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

12.02.2024

Deildafundur Sauðfjárbænda BÍ, haldinn í Reykjavík 12. – 23. febrúar 2024 hafnar framkomnum drögum að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu.
Fyrir því eru þessar meginástæður:

  • Reglugerðin byggir á hugtakinu vistgeta sem er í besta falli óljóst en í versta falli rangt allt eftir túlkun þar sem skilgreining með mælanlega, vísindalega rökstudda vísa er ekki sett fram í reglugerðinni. Það býður upp á oftúlkun og misræmi og er ekki til þess fallið að draga fram rökrétta nálgun á verkefnið.
  • Reglugerðin byggir á huglægu vali á svokölluðum viðmiðunarsvæðum. Ekki er gerð tilraun til þess í reglugerðinni að skilgreina hvernig á að velja viðmiðunarsvæði. Jafnvel er lagt upp með það að viðmiðunarsvæði finnist ekki og því þurfi sum svæði að miðast við tilgátusvæði. Þessi nálgun gjaldfellir þá hugmyndafræði sem reglugerðin og viðauki um beitarnýtingu byggir á. Viðmiðunarsvæði hafa ekki verið skilgreind en nauðsynlegt er að það hafi verið gert áður en kemur að gildistöku reglugerðar.
  • Í reglugerðinni eru gerðar kröfur til bænda umfram aðra landnotendur. Aðrir landnotendur hlíta þeim kröfum að forðast að raska landi sama í hvaða ástandi það er og endurheimta land í samræmi við það rask sem þeir valda. Kröfur eru til bænda um að hætta að nýta land í ákveðnu ástandi og bæta land langt umfram það sem þeir hugsanlega raska með sinni nýtingu. Við það verður ekki unað.
  • Ekki er minnst á neina mælikvarða fyrir beit eða landnýtingu, hvað gæti talist vera ofbeit, hæfileg beit eða lítil beit. Engin viðmið eða vinnureglur eru sett varðandi mögulega getu lands til að framfleyta búfé, engin hlutföll sett fram varðandi landstærð og fjárfjölda. Þar af leiðandi er illmögulegt fyrir landeigendur að átta sig á því hvar þeir standa gagnvart reglugerðinni.
  • Ekki er fjallað um villt beitardýr í reglugerðinni og þar með ekki skilgreint hvernig áhrif þeirra verða metin né hvernig þau hafa áhrif á mat á mælivísum frávika frá viðmiðunarsvæði.
  • Reglugerðin hefur ekki verið kostnaðarmetin né metin með tilliti til annarra þátta sjálfbærni við landnýtingu s.s. efnahagslegra og félagslegra þátta. Fjármögnun úttekta og aðgerða er ekki tilgreind.
  • Ekki hefur verið reynt að meta áhrif reglugerðarinnar á þátttökuvilja sauðfjárbænda í landgræðsluverkefnum en þátttaka þeirra hefur skilað umtalsverðri hagkvæmni í landgræðsluverkefnum undanfarna áratugi. Ef áhrif hennar eru neikvæð má ætla að það vinni gegn markmiðum um landgræðslu.
  • Í íslenskri stjórnsýslu er skilið á milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. Í þessari reglugerð og í þeim lögum sem hún byggir á virðist Land og skógur vera í öllum þessum hlutverkum.