Beint í efni

Reglugerð um gripagreiðslur er í burðarliðnum

31.05.2006

Smíði reglugerðar um gripagreiðslur er nú á lokastigi og er birtingar hennar að vænta fljótlega. Eins og fram kemur í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar sem undirritaður var í maí 2004, færist hluti af beingreiðslunum sem í dag eru greiddar vegna mjólkurframleiðslu, yfir á kýrnar.

Greitt verður á hverja kú sem borið hefur a.m.k. einum kálfi, er merkt með fullnægjandi hætti og skráð í Mark. Kýr sem komu í heiminn fyrir 1. september 2003 og eru merktar með því gripanúmeri sem þær bera í Mark teljast merktar með fullnægjandi hætti. Ef númeri grips þessara eldri gripa hefur verið breytt, t.d. við sölu, þarf að merkja þá að nýju með því númeri sem þeir bera nú og eru skráðir með. Ómerkta gripi sem fæddir eru fyrir 1. september 2003 skal að sjálfsögðu merkja einnig.

 

Gripir sem fæddir eru eftir 1. september 2003 eru einstaklingsmerktir og við merkingu þeirra skal alls ekki hróflað.