
Reglugerð birt um notkun á þjóðfánanum
13.07.2017
Breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga voru samþykktar á Alþingi í apríl á síðasta ári. Með þeim þarf ekki sérstakt leyfi til að nota fánann við markaðssetningu á vöru eða þjónustu. Reglugerð um nánari útfærslur á skilyrðum fyrir notkuninni hefur verið í vinnslu frá því í nóvember og hefur nú verið birt í Stjórnartíðindum.
Með útgáfu nýju reglugerðarinnar eru loksins komnar leiðbeiningar um notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vörum. Þar kemur m.a. fram að óheimilt sé að nota þjóðfánann sem firmamerki, einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðru þess háttar. Heimilt er að nota hinn almenna þjóðfána Íslendinga í merki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé vara eða starfsemi sú sem í hlut á íslensk og fánanum ekki óvirðing gerð, segir í reglugerðinni.
Hvenær er vara íslensk?
Í umræðu um notkun þjóðfánans hafa ýmis vafaatriði komið upp, t.d. hvenær vara telst íslensk eða ekki. Samkvæmt nýju reglugerðinni telst vara íslensk ef hún er (1) framleidd hér á landi úr innlendu hráefni eða (2)framleidd hér á landi úr innfluttu hráefni að hluta eða öllu leyti, enda hafi hún hlotið nægilega aðvinnslu hérlendis.
Þrátt fyrir lið 2 telst vara ekki íslensk ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og er eðlislíkt búvöru, þ.m.t. afurðum eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi, vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð, nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.
Sektarheimildir allt að 10 milljón krónur
Neytendastofa annast eftirlit með reglugerðinni en aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn reglugerðinni og geta þær numið að allt að 10 milljónum króna. Ef ekki er farið að tilmælum Neytendastofu er jafnframt heimilt að beita dagsektum.
Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR), sagði í samtali við Bændablaðið sem kom út 6. júlí sl. að þáverandi innanríkisráðherra hefði birt reglugerðardrög til umsagnar í nóvember 2016 um notkun á þjóðfána Íslendinga. „Í framhaldi af yfirfærslu málaflokksins til ANR hefur ráðuneytið undanfarnar vikur verið að fara yfir umsagnir og ganga frá umræddri reglugerð. Staðan er sú að þeirri vinnu er nú lokið og reglugerðin verður send Stjórnartíðindum til birtingar í fyrri hluta næstu viku,“ sagði Ingvi.
Reglugerð um notkun þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu á vöru og þjónustu