Beint í efni

Rannsóknarstofa mjólkuriðnaðarins sameinast SAM

28.11.2006

Rannsóknarstofa mjólkuriðnaðarins sameinaðist Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði þann 1. október s.l. Eftir breytinguna er RM rekin sem deild innan SAM. Starfsemin er til húsa að Bitruhálsi 2 í Reykjavík og eru starfsmenn 5 talsins. Umsjón með rekstri hennar hefur Jón Kr. Baldursson starfsmaður SAM. RM tók til starfa árið 1982 og var fyrsti forstöðumaður hennar Ólafur Oddgeirsson, dýralæknir. Árið 1992 varð Sævar Magnússon, mjólkurverkfræðingur forstöðumaður RM og gengdi hann því starfi til 1. október sl. Hann var ráðinn til RM 1. janúar 1983 og hefur því verið viðloðandi rannsóknarstofuna nær allan starfstíma hennar. Sérstök ástæða er til að þakka Sævari vel unnin störf í þágu íslenskra kúabænda. 

Megin starfsemi rannsóknarstofunnar eru mælingar á mjólkursýnum, líftölumælingar og prófun á virkni fúkkalyfja. Helstu gerðir mjólkursýna eru tanksýni, sem tekin eru í hvert skipti sem mjólk er sótt til framleiðenda. Einu sinni í viku eru sýnin send til RM og í þeim mæld fita, prótein, mjólkursykur, úrefni, frumutala, líftala, fríar fitusýrur, frostpunktur og kasein. Þessi sýni eru notuð til gæðaflokkunar og eru grunnur að greiðslu til framleiðenda fyrir mjólkina. Þá eru mæld s.k. kýrsýni, sem eru sýni sem tekin eru úr mjólk hverrar kýr. Þar eru mældir þættir eins og frumutala, fita, prótein, úrefni og kasein. Niðurstöður þessara mælinga eru notaðar við gæðaeftirlit heima á búunum og í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar. Þær eru undirstaða í ræktunarstarfi mikilvægra eiginleika eins og afkastagetu og júgurhreysti. Framleiðendur hafa tækifæri á að láta gera slíkar mælingar mánaðarlega, sér að kostnaðarlausu. Þá greinir RM s.k. spenasýni, til greiningar á júgurbólgu og lyfjanæmi. Einnig framkvæmir RM reglulega skimun eftir smitandi júgurbólgugerlum, Streptococcus agalactiae. Það er stefna RM að uppfylla væntingar viðskiptavina um gæði, vöru og þjónustu á hverjum tíma og að mæta breyttum þörfum þeirra. Áhersla er lögð á að þjóna rannsóknarþörfum viðskiptavina hverju sinni og skila rannsóknarniðurstöðum fljótt og örugglega til réttra eigenda og þeirra sem nýta niðurstöðurnar, svo og lögmætra eftirlitsaðila.