Rannsóknamiðstöð nautgriparæktar í Danmörku
31.05.2011
Í Danmörku er rekin fjölþætt þjónusta fyrir nautgriparæktina, enda með stærri atvinnuvegum landsins. Meðal annars sk. Rannsóknamiðstöð nautgriparæktarinnar eða KFC (Kvægbrugets Forsøgscenter), en hún er starfrækt í nágrenni tilraunasvæðisins við Foulum. Á Foulum er rekin tilraunamiðstöð í landbúnaði á vegum háskólans í Árósum og því kann að vekja furðu að við hlið slíkrar tilraunamiðstöðvar sé rekin sjálfstæð rannsóknarmiðstöð í nautgriparækt. Skýringin á þessu felst í eðli rannsóknanna, en á vegum háskólans eru stundaðar sk. grunnrannsóknir en hjá KFC mun oftar aðlögunarrannsóknir sem taka yfirleitt skamman tíma. Svipar rannsóknum KFC til margra nautgriparæktarrannsókna hér á landi.
KFC er starfrækt af dönskum kúabændum og fjármögnð beint af þeim og hafa bændurnir því eðlilega mikið um það að segja hverskonar starfsemi fer þarna fram. Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á fóðrunar- og tæknirannsóknir og einnig að nota glæsilega aðstöðuna að KFC til móttöku gesta. Hægt er að fylgjast náið með starfsemi KFC með því að skoða heimasíðuna www.kfc-foulum.dk. Rétt er að benda á að hægt er að gerast áskrifandi að net-tímariti KFC (ókeypis) þar sem helstu upplýsingar um starfsemina og rannsóknaniðurstöður eru sendar út reglulega. Þetta er gert með því að skrá netfang sitt í viðkomandi reit á forsíðu (neðarlega til vinstri) og smella á ”Tilmeld”/SS.