Beint í efni

Rannsókn á veiruskitu í kúm

15.02.2008

Á síðasta ári var sett af stað rannsókn á veiruskitu í kúm. Það er Matvælastofnun (áður Landbúnaðarstofnun) og Tilraunastöð HÍ að Keldum sem standa að rannsókninni, með styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Markmið rannsóknarinnar er að afla upplýsinga um fjölda tilfella, útbreiðslu, árstíma, aldur, áhrif á heilsufar og nyt o.s.frv. Einnig er ætlunin að reyna að staðfesta orsök sjúkdómsins. Grunur leikur á að um coronaveiru sé að ræða en það hefur ekki verið sannreynt.

Rannsóknin fer þannig fram að bændur eru beðnir um að láta Matvælastofnun vita þegar veiruskitan blossar upp. Þeim eru þá send spurningaeyðublöð til að fylla út. Á grundvelli þeirra eru síðan valdir bæir til sýnatöku.

Svo fór að í fyrra bárust aðeins örfáar tilkynningar um tilfelli þannig að nauðsynlegt er að framlengja rannsóknartímann um a.m.k. ár í viðbót. Því er þess hér með farið á leit við bændur að þeir láti vita ef veiruskita kemur upp hjá þeim á þessu ári. Það má gera með því að senda tölvupóst eða hringja í Auði Lilju Arnþórsdóttur á Matvælastofnun. Netfangið er audur.arnthorsdottir@mast.is og símanúmerið er 530-4800.

 

Nokkur orð um sjúkdóminn:
Veiruskita er mjög smitandi. Þegar hún berst í fjós smitast flestar kýr sem ekki hafa smitast áður. Sjaldgæft er að kýr drepist vegna sjúkdómsins en afleiðingar hans geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn veikir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu. Kýr sem veikjast falla verulega í nyt á meðan þær eru veikar og komast sjaldan í fulla nyt aftur á yfirstandandi mjaltaskeiði og sjúkdómurinn hefur einnig neikvæð áhrif á frjósemi þeirra, sem hvort tveggja getur valdið miklu fjárhagslegu tjóni.

 

Sjúkdómurinn er með öllu hættulaus fyrir fólk.

 

Auður Lilja Arnþórsdóttir, dýralæknir