
Rafrænar umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur
05.10.2017
Matvælastofnun opnar fyrir rafrænar umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur á Bændatorginu föstudaginn 6. október.
Að sögn Heiðrúnar Sigurðardóttur, sérfræðings hjá Búnaðarstofu Matvælastofnunar, verður frestur til að skila inn umsóknum á Bændatorginu ekki framlengdur en bændur skulu skila rafrænni umsókn eigi síðar en 20. október ár hvert. Hún vekur athygli á því að nú verða bændur að skila lögbundnu skýrsluhaldi í jarðrækt í skýrsluhaldskerfinu JÖRÐ.IS áður en gengið er frá umsókn á Bændatorginu.
Tölvudeild Bændasamtakanna hefur unnið að nýrri útgáfu af JÖRÐ.IS samkvæmt faglegri leiðsögn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins í þeim tilgangi að tryggja að ákvæði reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað nr. 1240/2016 séu uppfyllt um fullnægjandi skil á skýrsluhaldi. ,,Þegar skráningu er lokið í JÖRÐ.IS og skýrsluhaldinu hefur verið skilað þar, þá tekur ekki langan tíma að ganga frá rafrænni umsókn á Bændatorginu. Ástæðan er að öll gögn eru forskráð í JÖRÐ.IS og ekkert þarf að skrá í sjálfa umsóknina, heldur velja bændur einfaldlega spildur á jörðum sínum sem birtast í umsókninni.
Forsendan er að sjálfsögðu að búið sé að skrá allar upplýsingar Jarðarmegin, túnkort sé til staðar og uppskeruskráning í hekturum ef um umsókn um landgreiðslur er að ræða o.s.frv.
Ég geri ráð fyrir að Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins verði bændum innan handar við frágang á skýrsluhaldinu í JÖRÐ.IS svo þetta gangi allt vel fyrir sig,“ sagði Heiðrún í samtali við Bændablaðið.