Beint í efni

Rafrænar skráningar á sæðingum í nautgriparækt

03.06.2008

Í síðasta mánuði var opnað nýtt veflægt tölvukerfi fyrir frjótækna til að skrá sæðingar rafrænt á netinu. Tölvukerfið er smíðað í sama umhverfi og flest önnur tölvukerfi sem tölvudeild Bændasamtakanna hefur þróað þ.e.a.s. í JDeveloper og gagnagrunnurinn er í Oracle. Þetta nýja tölvukerfi hefur fengið hið lýsandi nafn FANG og er samræmt við nýtt skýrsluhaldskerfi fyrir nautgriparæktina sem var opnað nýlega fyrir alla kúabændur. Sjá frétt hér að neðan. Veflægu tölvukerfin MARK, HUPPA og loks FANG byggja öll á gagnagrunni nautgriparæktarinnar sem ber heitið KYR.

FANG byggir á þeirri kröfu að allir gripir sem koma fram á sæðingaskýrslum verða að vera skráðir í gagnagrunninn KYR. Þetta er í samræmi við reglugerð nr. 289/2005 um skyldumerkingar búfjár sem kveður á um að allir nautgripir skulu vera merktir og skráðir í MARK.

Allir frjótæknar hafa fengið aðgang að nýja sæðingakerfinu en einnig hefur Nautastöð Bændasamtakanna aðgang til að skrá hvaða naut eru í notkun o.fl.