Raförvun hér á landi hefur lítil áhrif á meyrni nautakjöts
10.05.2005
Í nýrri skýrslu MATRA um áhrif raförvunar á meyrni nautakjöts kemur fram að áhrifin eru hverfandi. Þetta er ekki í samræmi við margar erlendar niðurstöður og telja skýrsluhöfundar að ástæðan geti legið í því hve íslenski kúastofninn er frábrugðinn erlendum kúastofnum. Í skýrslunni er því velt upp hvort önnur samsetning á spennu, tíðni rafpúlsa og tímalengd geti haft tilsett áhrif, en það var ekki reynt í rannsókninni.
Við rannsóknina voru notuð þrjátíu naut undir 30 mánaða aldri og voru rannsökuð áhrif raförvunar starx eftir slátrun, eftir 40 mínútur frá slátrun og tví-raförvun (strax og eftir 40 mínútur). Forskrift raförvunarinnar byggði á erlendum niðurstöðum. Rétt er að benda á að allir skrokkhlutar voru hengdir upp samkv. svokallaðri mjaðmabeinsupphengju sem áður hefur verið sýnt fram á að hafi afgerandi áhrif á meyrni nautakjöts hér á landi. Raförvunin bætti s.s. engu við þau áhrif sem mjaðmabeinsupphengjan hefur á meyrni.
Rannsóknin var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins.