
Raforkuverð: Landsmönnum mismunað
04.01.2012
Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna hækkunar á dreifingarkostnaði raforku frá RARIK:
Þann 30. desember sl. tilkynnti RARIK hækkun á verðskrá sinni fyrir dreifingu og flutning á raforku. Hækkunin tók gildi um áramótin og nemur 7,5 % í dreifbýli og 5% í þéttbýli. Ýmis þjónustugjöld hækka jafnframt um 7,5%. Hækkunin er komin til vegna aukins kostnaðar að sögn fyrirtækisins.
Bændasamtök Íslands mótmæla hækkun dreifingar- og flutningskostnaðar til raforkukaupenda í dreifbýli umfram það sem gerist til annarra kaupenda. Raforka er að stærstum hluta framleidd á landsbyggðinni og flutt um landið þvert og endilangt, m.a. með raflínum sem liggja um eignarlönd og takmarka nýtingu þeirra. Það er óviðunandi að landsmönnum sé mismunað með þessum hætti.
Markviss aðgerð til að treysta hinar dreifðu byggðir er að allir íbúar á Íslandi njóti sömu kjara við dreifingu og flutning á raforku. Eitt verð fyrir alla á dreifingarkostnaði raforku er jafnréttismál fyrir landsbyggðina.