
Rafn Bergsson gefur kost á sér til formanns!
21.02.2023
Rafn Bergsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til formannssetu Nautgripabænda BÍ.
Rafn er bóndi í Hólmahjáleigu í Landeyjum ásamt konu sinni Majken E Jörgensen og eiga þau aman tvö börn. Rafn er menntaður bifvélavirki og vann mest við viðgerðir og járnsmíðar þar þau hjónin keyptu jörðina Hólmahjáleigu af foreldrum Rafns árið 2005. Þá hafði kúabúskapur legið niðiri á jörðinni í 2 ár. Í gegnum árin hafa þau byggt upp búskapinn og eru í dag með um 60 mjólkurkýr auk uppeldis.
Í pistli sem Rafn birti inn á Facebook hópnum Kúabændur og Spekúlantar kemur hann inn á að hann hafi verið virkur í félagsmálum bænda undanfarinn ár. Frá 2018 hefur hann setið í stjórn LK og síðar stjórn búgreinadeildar Nautgripabænda. Telur hann sig búa yfir góðri reynslu til að taka við formennsku búgreinadeildar Nautgripabænda BÍ.
"Það eru ýmis mikilvæg verkefni framundan. Endurskoðun búvörusamninga fer fram á þessu ári. Á komandi Búgreinaþingi verða lagðar línur varðandi endurskoðunina og ákveðið hvaða breytingar bændur vilja leggja áherslu á. Mikilvægt í þeirri vinnu er að bæta afkomuna í greininni. Samkvæmt rekstrarverkefni RML fer rekstrarafkoma í greininni versnandi, enda finna líklega flestir bændur fyrir því á eigin skinni, að hækkandi verð á aðföngum og hækkandi vextir valda verulega þyngri rekstri. Sérstaklega hef ég áhyggjur af því fólki sem nýlega hefur keypt bú eða hefur verið í stórum framkvæmdum.
Loftlags- og umhverfismál eru fyrirferðamikill málaflokkur í umræðunni í dag. Í þessum málaflokki eru heilmiklar áskoranir framundan, en þarna eru líka ýmis tækifæri að mínu mati sem greinin getur nýtt sér til hagsbóta.
Erfðamengisverkefnið er loksins hafið eftir mikinn og langan undirbúning. Þetta er gríðarlegt framfaraskref sem allir kúabændur koma til með að njóta góðs af til framtíðar. Við þurfum að auka þáttöku í sýnatöku og er að mínu mati engin afsökun til fyrir því að taka ekki þátt.
Annað verkefni sem lengi hefur verið í umræðunni er kyngreining á sæði. Skýrsla RML um Kyngreiningu sæðis liggur nú fyrir og því liggur beint við að búgreinadeild Nautgripabænda vinni sem hraðast að því kanna vel hvaða möguleikar eru í þessum efnum og hver hugsanlegur kostnaður gæti orðið. Það verður spennandi að sjá hvaða möguleika við eigum til að nýta okkur þessa tækni, sem gæti án efa skilað greininni miklum ávinningi."