Beint í efni

Ræktunarnefnd – 1. fundur 2002

01.03.2002

Fundargerð 1. mars 2002

Fundurinn var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands á Selfossi en hófst með vali nauta á Uppeldisstöðinni í Þorleifskoti um kl. 15.30. Mættir voru Jón Viðar Jónmundsson, formaður, sem stýrði fundi, Guðlaugur Antonsson, Egill Sigurðsson, Friðrik Jónsson, Guðmundur Steindórsson, Sigurmundur Guðbjörnsson, Sveinn Sigurmundsson og Guðmundur Jóhannesson er ritaði fundargerð.

1. Fundarsetning.
Formaður, Jón Viðar Jónmundsson, setti fund og bauð fundarmenn velkomna til hans.

2. Fundargerð síðasta fundar.
Fundargerð síðasta funda samþykkt án athugasemda.

3. Skýrslur frá Nautastöðinni.
Guðlaugur dreifði yfirliti um útsent sæði á árinu 2001. Alls voru sendir út 49.732 skammtar sem er 118 skömmtum meira en árið áður þrátt fyrir fækkun kúa. Guðlaugur velti upp hvort verið gæti að kvígusæðingar væru að aukast. Skipting útsends sæðis var eftirfarandi:


 

Reynd naut 48,15%
Óreynd naut 46,90%
Holdanaut 4,95%


Hlutföll milli reyndra og óreyndra hafa heldur lagast frá fyrra ári en þó þarf enn að skerpa nokkuð á notlun óreyndu nautanna. Hlutfalli þeirra þarf að ná upp fyrir 50%.

Mest var sent út úr eftirtöldum nautum: Kaðall 4.042 sk., Völsungur 2.786 sk., Frískur 2.105 sk. og Punktur 2.018 sk. Úr öðrum nautum var sent mun minna.

Guðlaugur dreifði yfirliti um útsent sæði það sem af er þessu ári. Þar virðast óreyndu nautin, góðu heilli, sækja töluvert á.

Þessu næst dreifði Guðlaugur yfirliti um útsent svæði 2001 eftir svæðum og frjótæknum. Þar kemur fram verulegur munur á hlutfallslegri notkun reyndra og óreyndra nauta eftir frjótæknum. Það er alveg ljóst að nokkur hópur frjótækna þarf að taka sig á í því að halda notkun óreyndu nautanna uppi á sínu starfssvæði.

Farið var yfir fjölda nauta sem felld voru á s.l. ári. Frá síðasta fundi hafa aðeins verið felld tvö naut:

Nafn og nr. Felldur,
dags.
Aldur
í mán.
Fall,
kg
Flokkun
Trandill 99042 30.11.2001 24 258 UNI A
Guffi 00002 30.11.2001 23 220 UNI A


Guðlaugur sagði hafa verið mjög örðugt að koma nautum í slátrun og ekki síst eftir að rekstri sláturhúss í Borgarnesi hefði verið hætt um tíma.

Á árinu 2001 var alls slátrað 26 nautum og þar af fóru 17 í UNI A, 6 í UNI M+, 1 í UNI M, 1 í UNI M- og 1 í UNII M. Af þeim níu sem fóru í M+, M og M- flokka voru 5 vel innan við 20 mánaða, allt niður í 14 mánaða gamlir.

Þá var farið yfir þau naut sem flutt voru að Hvanneyri á árinu 2001 og framgang þeirra. Samtals voru 30 naut flutt að Hvanneyri á árinu og þar af gáfu 24 nothæft sæði en einn er enn óráðinn. Hinir stukku ekki (3), einn fótbrotnaði og einn reyndist vanskapaður á kynfærum, nokkuð sem ekki var unnt að sjá fyrir.

Yfirliti um sæðisbirgðir úr ungnautum dreift. Útsendingu er lokið úr nautum fæddum ´99 og fyrstu nautum úr árg. ´00. Í dreifingu núna eru: Viðauki 00008, Gikkur 00009, Laski 00010, Golli 00012, Kistill 00017, Fóstri 00018, Vörður 00021, Ísbúri 00022, Kósi 00026, Þúsi 00029 og Júdas 00031. Útsending er langt komin úr þeim fjórum fyrst töldu en nýhafin úr þeim fjórum síðast töldu. Þá bíða Gosi 00032, Náttfari 00035, Þröstur 00037, Tjarni 00039, Ljómi 00040, Bútur 00043, Jóli 00044 og Lás 00045 útsendingar.

Rennt yfir birgðir af holdasæði miðað við 25. febrúar 2002. Til eru 26.412 skammtar af Angus, 34.927 sk. af Limousine og 14.752 sk. af Galloway. Alls gerir þetta 76.901 skammta af holdasæði. Miðað við notkun síðasta árs eru þetta birgðir til 18 ára af Angus, 40 ára af Limousine og 59 ára af Galloway.

Guðlaugur renndi yfir sæðisbirgðir úr nautum fæddum 1989-95. Sæði er uppurið úr Kaðli og Völsungi og ljóst að hratt mun ganga á birgðir úr Fríski og Punkti á árinu.

Guðlaugur ræddi um hallarekstur Nautastöðvarinnar á s.l. ári. Hann sagði ljóst að hækka yrði sæði frá Nautastöðinni um allt að 15%. Hann velti upp hugmyndum að breytingum á gjaldtöku og að ekki yrði einungis tekið gjald fyrir ásettar kýr skv. forðagæsluskýrslum heldur og einnig fyrir ásettar kvígur. Til greina kæmi að taka hálft gjald á kvígurnar. Nokkrar umræður urðu um þetta og rekstargrundvöll stöðvarinnar með hliðsjón af fækkun kúa í landinu og þá staðreynd að ekki væri hægt að draga neitt saman rekstur stöðvarinnar þrátt fyrir það. Bæði þyrfti að fá ákveðinn fjölda ungnauta í prófun og svo drægist útsent sæði ekki saman.

4. Uppeldisstöðin.
Á stöðinni eru 42 kálfar í dag og er þar um að ræða ´01 árganginn eins og hann leggur sig. Engum kálfi hefur enn verið fargað úr árgangnum. Skipting þeirra milli héraða er eftirfarandi:

Suðurland 26 62%
Eyjafjörður 6 14%
Vesturland 2 5%
Þingeyjarsýslur 2 5%
Skagafjörður 2 5%
Vestfirðir 2 5%
Húnavatnssýslur 1 2%
A-Skaftafellssýsla 1 2%


Teknir voru kálfar undan fleiri nautum en oftast áður og er dreifing á feður þess vegna með meira móti eins og sjá má á eftirfarandi upptalningu:

Negri 91002 1
Tjakkur 92022 3
Smellur 92028 7
Snarfari 93018 1
Klerkur 93021 9
Blakkur 93026 1
Sokki 94003 1
Klaki 94005 1
Völsungur 94006 7
Pinkill 94013 3
Kaðall 94017 5
Frískur 94026 2
Punktur 94032 1


5. Skýrsluhaldið árið 2001.
Jón Viðar dreifði yfirliti um niðurstöður skýrsluhalds síðasta árs. Alls voru 765 bú á skýrslu og skýrslufærðar kýr 28.766. Árskúm fækkaði heldur eða í 20.245. Afurðaaukning varð geysimikil eða 237 kg milli ára og enduðu meðalafurðir í 4.894 kg/árskú. Mestar eru afurðir í A-Skaftafellssýslu eða 5.170 kg/árskú, S-Þingeyjarsýslu 5.018 kg/árskú og Skagafirði 5.000 kg/árskú. Afurðaaukning milli ára varð hins vegar áberandi mest á Suðurlandi, í Eyjafirði, S-Þing. og á Snæfellsnesi.

Alls náðu fjögur bú meðalafurðum yfir 7.000 kg/árskú, öll á Suðurlandi; Kirkjulækur II í Fljótshlíð (7.136 kg), Birtingaholt I í Hrunamannahreppi (7.129 kg), Miðhjáleiga í Austur-Landeyjum (7.112 kg) og Litla-Tunga II í Holtum (7.075 kg).

Afurðahæstu kýr ársins voru; Skræpa 252 í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum undan Daða 87003 með 12.038 kg, Ey 205 á Bjargi í Hrunamannahreppi undan Hólmi 81018 með 11.570 kg, Sletta 219 á Fossi í Hrunamannahreppi undan Hólmi 81018 með 11.173 kg, Gyðja 225 í Stóru-Hildisey 2 í Austur-Landeyjum undan Þistli 84013 með 10.434 kg, Frekja 208 á Ásólfsskála undir V-Eyjafjöllum undan Hvanna 89022 með 10.048 kg og Króna 025 á Heggsstöðum í Andakíl undan Andvara 87014 með 10.009 kg.

Þátttaka í skýrsluhaldi er 85% miðað við greiðslumark. Alveg ljóst að þátttaka verður ekki aukin mikið frá því sem hún er í dag en þó eru einhverjir möguleikar í þá veru enn til staðar. Nautgriparæktarráðunautar hver á sínu svæði þurfa að huga að því að hreinsa upp þau bú sem enn standa utan skýrsluhalds en verulegur munur er á milli svæða, eða 57-100%. Um þetta verður fjallað nánar í næsta nautgriparæktarblaði Freys.

Enn verður aukning á tíðni dauðfæddra kálfa. Rætt var um nauðsyn þess að gera verulegt átak í rannsókn á t.d. selen-stöðu í gróffóðri og jarðvegi. Ýmsar vísbendingar eru í þá átt að áhrif selen-skorts geti einnig verið júgurbólga sem er langkostnaðarsamasti sjúkdómur við mjólkurframleiðslu hérlendis. Ef draga mætti úr júgurbólgu og kálfadauða væri mikið unnið miðað við núverandi stöðu sem væri í raun óviðunandi.

Að lokum var rennt yfir yfirlit um ættfærslu kúa sem Jón Viðar hafði tekið saman. Þar kemur fram verulegur munur á ættfærslu eftir héruðum og alveg ljóst að þar er töluvert að vinna til eflingar í ræktunarstarfinu. Í heildina eru aðeins um 68% kúnna feðraðar sem er algjörlega óviðunandi niðurstaða.

6. Endurskoðun á ræktunarmarkmiðum.
Jón Viðar velti upp hvort ástæða væri til að breyta ræktunarmarkmiðunum. Danir hafa nú t.d. breytt sínum markmiðum, minnkað vægi útlitsþátta og bætt inn endingu. Jón Viðar sagði að meðalending kúnna væri stöðugt að styttast hjá okkur. Fundarmenn sammála um að hrófla ekki stórlega við ræktunarmarkmiðunum að svo stöddu en bíða eftir niðurstöðum úr mastersverkefni Baldurs H. Benjamínssonar við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn en þar er hann að kanna hvort og þá hvernig við getum byggt upp kynbótamat fyrir endingu. Ákveðið að taka þessi mál til ítarlegri umfjöllunar á fundi hópsins í júní n.k. en þá ættu fyrstu niðurstöður eða vísbendingar að liggja fyrir hjá Baldri.

Varðandi innbyrðis vægi þátta var ákveðið að breyta útreikningi á einkunn fyrir spena á þann veg að hækka vægi á spenastaðsetningu í 0,2 úr 0,05 og lækka jafnframt vægi á spenalengd í 0,05 úr 0,2.

7. Afkvæmadómur nauta f. 1995.
Jón Viðar dreifði yfirliti yfir kynbótaeinkunnir nauta og niðurstöðum mælinga og kvíguskoðunar á dætrum nauta f. ´95. Nautaárgangurinn 1995 verður að teljast fremur slakur ef miðað er við ´94 árganginn. Að þessu loknu var tekin ákvörðun um dóm nautanna.

C-dóm og þar með öllu sæði hent hlutu:Vopni 95004, Blettur 95008, Svali 95013, Talandi 95014, Vakandi 95016, Safi 95017, Gustur 95018, Mjaldur 95021, Gauli 95023 og Harri 95031.

B-dóm eða til notkunar sem kýrfeður hlutu: Díli 95002, Tindur 95006, Mars 95007, Biskup 95009, Þerrir 95015, Bolur 95022, Glæsir 95025, Laufi 95026, Búandi 95027, Kjuði 95032, Krummi 95034 og Gróandi 95038.

A-dóm eða til notkunar sem nautsfeður hlutu: Seifur 95001, Soldán 95010, Túni 95024 og Sproti 95036.
Rétt er að geta þess að Soldán er það naut sem aðallega verður horft til sem nautsföður ásamt ´94 nautunum en undir hina þrjá verður að velja nautsmæður af mikilli kostgæfni.

Besta naut árgangsins ´95 dæmist Soldán 95010 frá Hrólfsstaðahelli í Landsveit.

Komið var inn á fanghlutfall nauta úr ´95 árgangnum en eins og menn muna var sæði þó nokkurra nuata úr þeim árgangi þynnt í 20 millj. sæðisfruma í strái miðað við 35 millj. fruma í strái áður og nú. Guðlaugur dreifði yfirliti um árangur úr einstökum nautum og samantekt sem hann vann í fyrra varðandi áhrif mismunandi þynningar nautasæðis á árangur. Þar kom fram að árangur versnaði niður í tæp 66% við þynningu í 20 millj. sæðisfruma í strái samanborið 70% árangur við 35 millj. sæðisfruma í strái. Á yfirlitinu kemur fram að verulegur munur er milli nauta hvað árangur snertir og einskorðast ekki eingöngu við mismikla þynningu. Einstök naut með allt niður í 52% árangur. Rætt hvort rétt væri að birta upplýsingar um einstök naut og voru fundarmenn á því að ekki væri stætt á öðru. Bændur ættu rétt á því að fá upplýsingar um ef illa héldi við einstökum nautum hver svo sem ástæðan væri.

8. Nautaskrá 2002.
Farið var yfir hvaða naut ætti að setja í nautaskrá þessa árs. Ákveðið að eftirtalin naut yrðu í skrá: Forseti 90016, Skuggi 92025, Sokki 94003, Klaki 94005, Hamar 94009, Pinkill 94013, Vestri 94014, Sveipur 94016, Búri 94019, Drómi 94025, Frískur 94026, Punktur 94032, Galsi 94034, Seifur 95001, Mars 95007, Biskup 95009, Soldán 95010, Túni 95024, Búandi 95027, Krummi 95034 og Sproti 95036.

Aðalnautsfeður verða eins og áður sagði: Frískur 94026, Punktur 94032 og Soldán 95010. Seifur 95001, Túni 95024 og Sproti 95036 eru einnig nautsfeður en þar þarf að vanda nautsmæðravalið enn frekar.

Þá verður eins og áður hægt að sérpanta sæði úr öllum þeim nautum sem hlotið hafa A- og B-dóm og til er sæði úr.

9. Nautsmæðraval.
Vegna þeirrar breiddar sem nú verður í nautsfeðrum þarf að leggja aukna vinnu í að para þá við nautsmæður eins og áður hefur verið tæpt á. Sjálfsagt er að nýta Nautaval í þessu skyni. Þá þarf að skerpa á nautsmæðravalinu og huga alvega sérstaklega að mjög ættgóðum og efnilegum fyrsta og annars kálfs kvígum.

10. Ræktunarkjarninn.
Sveinn sagði frá ræktunarkjarnanum á Stóra-Ármóti. Engin kýr hefur haldið við fósturvísaflutninga í vetur. Spurning er hvort þeir fósturvísar sem eru til eru í lagi.

Kvígurnar sem báru í vetur fóru mjög vel af stað, í 25-30 kg dagsnyt. Síðan þá hefur nytin minnkað, m.a. vegna þeirra tilrauna sem eru í gangi þar sem þær eru fóðraðar undir orku- og próteinþörfum um tíma.

Fá þarf vissu fyrir hvort fósturvísarnir sem nú eru til séu nothæfir eða ekki upp á skipulag og framhaldið.

11. Val á nautum á Uppeldisstöðinni.
Eins og áður sagði hófst fundur á Uppeldisstöðinni með vali nauta þar sem skoðaðir voru 14 nautkálfar úr ´01 árgangnum. Ákveðið að eftirtalin naut yrðu send að Hvanneyri:

Nafn og nr. Faðir Móðir Uppruni
Húsi 01001 Tjakkur 92022 Ljúf 275 Húsatóftum, Skeiðum
Aspar 01003 Tjakkur 92022 Ösp 281 Birtingaholti IV, Hrun.
Úði 01004 Klerkur 93021 Hvítkolla 290 Ytri-Skógum, A-Eyjafjöllum
Kolskeggur 01006 Snarfari 93018 Huppa 241 Kirkjulæk II, Fljótshlíð
Völlur 01007 Klerkur 93021 Rauðá 148 Syðra-Velli, Gaulverjabæjarhr.
Lói 01008 Klerkur 93021 Hönk 293 Brakanda, Hörgárdal
Vinur 01009 Blakkur 93026 Lipurtá 047 Hólum, Reykhólasveit
Grjóti 01010 Klerkur 93021 Gretta 083 Grjótá, Fljótshlíð
Glópur 01011 Klerkur 93021 Kinna 184 Litlu-Brekku, Hofshreppi
Bónus 01013 Tjakkur 92022 096 Stóru-Mörk, V-Eyjafjöllum
Hökull 01015 Klerkur 93021 Björk 284 Þríhyrningi, HörgárdalÁkveðið að fella eftirfarandi naut:

Nafn og uppruni: Ástæða
Tungli frá Holtsseli, Eyjafirði Gallar í byggingu, lágfættur
Skrúður frá Miðhúsum, Biskupstungum Afurðir móður vart nægar
Salómon frá Stóru-Mörk, V-Eyjafjöllum Byggingagallar, óreglulegur burðartími móður

 

12. Önnur mál.
Jón Viðar sagði frá starfi nefndar um eflingu á ræktun íslensku kýrinnar. Nefndin hefur fundað 2-3svar sinnum en engar niðurstöður eru komnar að svo stöddu. Sveinn spurði um fjármagn til kvíguskoðunar. Jón Viðar svaraði því til að beðið væri eftir hvort fjármagn kæmi í búnaðarlagasamningi en að öðrum kosti sagðist hann leggja áherslu á að þetta væri í forgangsröð í ræktunarátaksfjármagninu.

Jón Viðar dreifði samantekt um áhersluatriði við framkvæmd nautgriparæktarstarfsins en það plagg verður til umræðu á næsta fundi er rætt verður um ræktunarmarkmiðin.

Varðandi skoðun á kúm nefndi Jón Viðar að líklega væri rétt að endurmeta lifandi dætur nautsfeðra. Þannig mætti styrkja val á nautkálfum.

Egill spurði hvort til væri samræmd skrá um þá nautkálfa sem boðnir væru á stöðina og hvort ástæður höfnunar væru skráðar á samræmdan hátt. Hann sagði erindi varðandi þetta hefði borist til sín. Sveinn svaraði því að útsend nautsmæðraskrá innihéldi mun fleiri kýr en þær sem æskilegar væru sem nautsmæður þar sem ekki væri tekið tillit til útlits, mjalta eða skaps er skráin væri tekin saman. Þess vegna yrði ávallt að hafna einhverjum kálfum. Hins vegar væri ekki haldin samræmd skrá um boðna nautkálfa.Guðmundur Jóhannesson sagði að það væri alltaf haft samband við menn hvort sem nautkálfur væri tekinn á stöð eður ei, ástæður gefnar og þakkað fyrir. Það væri beinlínis metnaðarmál og sjálfsögð kurteisi að gera slíkt. Jón Viðar tók undir þetta og sagðist halda að þessi háttur væri alls staðar hafður á. Nokkur umræða varð um nautsmæðraval og framkvæmd ræktunarstarfsins í framhaldinu.

Egill nefndi trúverðugleika skýrsluhaldsins og meintan mismun milli afurða og innleggs. Þessi umræða væri ávallt til staðar. Jón Viðar sagði þessa umræðu hafa verið mun háværari áður fyrr og tók jafnframt fram að erlendis væri mun meira eftirlit með þessu. Guðmundur Jóhannesson sagði að á Suðurlandi væri þetta kerfisbundið borið saman og t.d. væri ætlunin að birta þessar tölur hjá 10 afurðahæstu búunum með samþykki viðkomandi í Fréttabréfi BSSL.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Guðmundur Jóhannesson