Ræktunarnefnd – 3. fundur 2001
19.11.2001
Fundurinn var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands og hófst um kl. 11.20.
Mættir voru Jón Viðar Jónmundsson, formaður, sem stýrði fundi, Guðlaugur Antonsson, Egill Sigurðsson, Friðrik Jónsson, Guðmundur Steindórsson, Sigurmundur Guðbjörnsson, Sveinn Sigurmundsson og Guðmundur Jóhannesson er ritaði fundargerð.
1. Fundarsetning.
Formaður, Jón Viðar Jónmundsson, setti fund og bauð fundarmenn velkomna.
2. Fundargerð síðasta fundar.
Fundargerð síðasta fundar var samþykkt án athugasemda.
3. Skýrslur frá Nautastöðinni.
Guðlaugur dreifði yfirliti um naut flutt að Hvanneyri á árinu 2001 og framgang þeirra. Frá síðasta fundi hafa 10 naut verið flutt uppeftir og þar af reyndust 7 vera í lagi. Fella varð Ísidór þar sem hann stökk aldrei, Frest sem reyndist með vanskapaða sin og Stafn sem hætti að stökkva. Það vekur eftirtekt að allir synir Skugga 92025 eru fallnir.
Þessu næst dreifði Guðlaugur yfirliti um sæðisbirgðir úr ungnautum en dreifing úr unganutum fæddum ´99 er á lokastigi og fyrstu naut árgangsins ´00 bíða útsendingar. Fyrstu skammtar raunar farnir. Útsendingu er nánast lokið úr Ganganda 99035 og Þverhausi 99036 og langt komin úr Læk 99038, Potti 99041 og Trandil 99042.
Frá síðasta fundi hafa eftirtalin naut verið felld:
_____________________________________________________________________________
Nafn og nr. dags. í mán. kg Flokkun
_____________________________________________________________________________
Ómur 00007 29.06.2001 17 176 UNI M+
Kollur 99025 23.07.2001 24 254 UNI A
Rökkvi 99026 23.07.2001 24 235 UNI A
Tinni 99027 19.08.2001 24 258 UNI A
Ótti 99029 18.09.2001 24 265 UNI A
Ísidór 00014 18.09.2001 18 168 UNI A
Kofri 99030 01.10.2001 25 228 UNI A
Oddi 99034 01.10.2001 23 228 UNI A
Gangandi 99035 01.10.2001 23 232 UNI A
Frestur 00019 01.10.2001 17 200 UNI A
Stafn 00023 01.10.2001 15 164 UNI M+
Þverhaus 99036 02.11.2001 24 238 UNI A
_________________________________________________________________________________
Þá dreifði Guðlaugur yfirliti um útsent sæði á árinu 2001. Langmest var sent út úr Kaðli 94017 (3.235 sk.) og Völsungi 94006 (2.234 sk.) Það sem af er þessu ári er skiptingin í sæðisnotkun eftirfarandi:
Reynd naut 49,6%
Óreynd naut 45,4%
Holdanaut 5,0%
Suðurland liggur allneðarlega í notkun óreyndra nauta og einkum virðast það vera uppsveitir Árnessýslu. Guðlaugur ræddi hvort fækka ætti teknum skömmtum úr hverju nauti með hliðsjón af fækkun kúa frá því að kynbótaskipulagið var gert. Nokkrar umræður urðu um þetta og voru menn sammála því að alvarlegt væri hve fáar kvígur væru sæddar með hliðsjón af hve þær væru orðnar stór hluti heildarstofnsins með auknum endurnýjunarhraða. Að svo stöddu er ekki ástæða til að fækka teknum skömmtum úr hverju nauti en hafa það til athugunar eigi að síður.
Yfirliti um sæðisbirgðir úr reyndum nautum dreift. Allmikið er farið að ganga á birgðir úr Kaðli 94017 og ástæða til þess að hafa nokkuð eftirlit með því að hann sé fyrst og fremst notaður í nautsmæður og efnilegar kvígur.
Guðlaugur dreifði og fór yfir árangur einstakra frjótækna og árangur reyndra og óreyndra nauta með 100 eða fleiri 1. sæðingar á árinu 2001. Skv. því liggur ekkert naut undir 60% árangri það sem af er árinu. Guðlaugur dreifði einning yfirliti yfir árangur nauta með 50 eða fleiri 1. sæðingar á árinu 2001 skipt eftir mánuðum. Ekkert naut liggur undir 60% og er meðalárangur úr reyndum nautum 70,7%, 75,3% úr óreyndum nautum, 73,0% úr Angus nautum og 73,8% úr Limousin. Meðalárangur í heildina er 73,3% úr 15.269 fyrstu sæðingum það sem af er árinu. Greinilegt er að árangur úr óreyndum nautum liggur aðeins hærra en úr þeim reyndu eins og verið hefur.
Guðlaugur greindi frá því að hann hefði setið aðalfund Frjótæknafélagsins og þar hefði verið kvartað yfir að í nautaskrá vantaði ábendingar um skyldleika eins og verið hefði á gamla nautaspjaldinu. Fundarmenn sammála að setja þetta á síðu í nautaskránni og einnig á spjald fyrir frjótækna.
Guðlaugur sagði hafa komið ósk frá Svíum um kaup á nautasæði. Við eftirgrennslan kom í ljós að töluvert vantar upp á að nautastöðin uppfyli kröfur ESB. Yfirdýralæknir hefur þegar skoðað stöðina og skilað greinargerð með ábendingum og skilyrðum um hvað laga þyrfti til þess að ESB-leyfi fengist. Það er alveg ljóst að töluverður kostnaður yrði þessu samfara, sérstaklega varðandi sýnatökur úr gripum og greiningar á þeim. Ekki talið skynsamlegt að leggja út í þann kostnað fyrir þá 200 skammta sem Svíarnir hafa óskað eftir.
4. Uppeldisstöðin.
Jón Viðar sagði framboð nautkálfa aldrei hafa verið minna en núna. Á stöðinni eru nú 40 nautkálfar, þar af 2 sem bíða flutnings að Hvanneyri og 5 sem bíða slátrunar. framboð kálfa hefur verið langmest af Suðurlandi og alveg ljóst að auka þarf framboð kálfa á öllum svæðum á næstu mánuðum.
5. Skýrsluhaldið.
Afurðir halda áfram að aukast og hafa því aldrei verið meiri. Fáir skýrsluhaldarar bætast í hópinn en þó þokast mál í rétta átt þar.
6. Haustvinnsla kynbótamats.
Nautin f. ´94 standa enn undir fyrri dómi og hafa ekki lækkað sem neinu nemur. Galsi 94034 hefur að vísu lækkað aðeins og stendur vart undir því að vera nautsfaðir lengur. Prúður 94030 hefur hækkað en kemur varla inn nema sem valkostur þar sem júgurheilbrigði dætra hans virðist misgott.
Sveipur 94016 hefur lækkað og verður tekin af útsendingarlista og verður til sérpöntunar.
Árgangurinn frá ´95 er mun misjafnari en ´94 árg. og greinilegt að færri naut munu koma til framhaldsnotkunar úr þeim árg.
Þá eru fyrstu vísbendingar um árg. ´96 á sömu lund, þar eru nautin misjafnari en ´94 nautin. Þó er það byggt á fáum dætrum og gæti tekið miklum breytingum.
Af eldri nautum hefur Klerkur 93021 lækkað en Stúfur 90035 fer hins vegar töluvert upp á við.
Að lokum var farið yfir birgðir úr reyndum nautum og ákveðið hvort grisja mætti birgðir úr einhverjum nautanna.
7. Önnur mál.
Jón Viðar dreifði skýrslu frá faghópi landbúnaðarráðherra um áhersluþætti og rammaáætlun varðandi samanburðarannsókn á íslenskum og norskum (NRF) kúm. Þessi skýrsla er til skoðunar og fróðleiks fyrir nefndarmenn en fyrir liggur skoðanakönnun um framkvæmd tilraunarinnar á næstu dögum.
Egill spurði um hvernig starfi hóps á vegum landbúnaðarráðherra varðandi afkastagetu íslensku mjólkurkýrinnar miðaði. Jón Viðar sagðist hafa það eftir Ágústi Sigurðssyni, sem veitir hópnum forstöðu, að fundað yrði fyrsta sinni á allra næstu dögum.
Ýmis önnur mál tekin til umræðu, m.a. einstaklingsmerkingar, framleiðslumál, nýlega útkomin skýrsla Rannís um stöðu og þróunarhorfur í nautgriparækt á Íslandi o.fl.
8. Val nauta á Uppeldisstöðinni.
Haldið var í Uppeldisstöðina í Þorleifskoti þar sem skoðuð voru 11 naut úr 2000 árgangnum. Ákveðið var að eftirtalin naut yrðu send að Hvanneyri:
_______________________________________________________________________________
Nafn Faðir Móðir Uppruni
______________________________________________________________________________
Náttfari Smellur 92028 Góðanótt 165 Vorsabæ, A-Landeyjum
Þröstur Skuggi 92025 Stör 245 Lambhaga, Rangárvöllum
Tjarni Tjakkur 92022 Vala 149 Stóru-Tjörnum, Ljósavatnshreppi
Ljómi Skuggi 92025 Gulla 243 Skipholti III, Hrunamannahreppi
Indjáni Smellur 92028 Lína 142 Saursstöðum, Haukadal
Bútur Smellur 92028 Óla 114 Geirshlíð, Flókadal
Jóli Tjakkur 92022 Grýla 15 Birtingaholti IV, Hrunamannahreppi
Lás Smellur 92028 Skrá 267 Hæli, Gnúpverjahreppi
_________________________________________________________________________________
Rétt er að taka fram að ákvörðun að á síðasta fundi var ákveðið að fella Ljóma vegna stórra hnífla en sú ákvörðun endurskoðuð þar sem þeir eru enn lausir og virðast ekki líklegir til að festast.
Ákveðið var að fella eftirtalin naut:
_______________________________________________________________________________
Nafn og uppruni Ástæða
_____________________________________________________________________________
Prins frá Holtsseli, Eyjafirði Of lágt kynbótamat móður
Toppur frá Syðri-Bægisá, Öxnadal Fótagallar
Dúni frá Hrauntúni, Kolbeinsstaðahr. Of lágt kynbótamat móður
Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 17.00.
Guðmundur Jóhannesson