Ræktunarnefnd – 3. fundur 2000
01.11.2000
Fundargerð 1. nóvember 2000
Fundurinn var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands og hófst kl. 11.00. Mættir voru Jón Viðar Jónmundsson, formaður, sem stýrði fundi, Guðlaugur Antonsson, Egill Sigurðsson, Friðrik Jónsson, Sigurmundur Guðbjörnsson, Sveinn Sigurmundsson og Guðmundur Jóhannesson er ritaði fundargerð. Guðmundur Steindórsson boðaði forföll.
Fyrstu sjö liðum á dagskrá var frestað og strax haldið í Uppeldisstöðina í Þorleifskoti.
8. Val nauta á Uppeldisstöðinni.
Skoðuð voru 10 naut og ákveðið að þeir færu allir að Hvanneyri þar sem þar með væru farnir 22 kálfar að Hvanneyri úr ´99 árgangnum og mætti ekki minna vera. Leynir 99033 sendur upp eftir með fyrirvara um afföll við sæðistöku en hann virðist fremur viðkvæmur þannig að gangi sæðistaka úr öðrum nautum vel verður hann ekki til sæðistöku. Eftirtalin naut verða því send að Hvanneyri:
Nafn og nr. | Faðir | Móðir | Uppruni |
Ótti 99029 | Tuddi 90023 | Gyðja 107 | Arnstapa, Ljósavatnshr. |
Kofri 99030 | Þyrnir 89001 | Frostrós 528 | Stóra-Ármóti, Hraungerðishr. |
Leynir 99033 | Krossi 91032 | Kata 239 | Skeiðháholti, Skeiðum |
Oddi 99034 | Negri 91002 | Heiða 378 | Helluvaði, Rangárvöllum |
Gangandi 99035 | Krossi 91032 | Eyrarrós 115 | Göngustöðum, Svarfaðardal |
Þverhaus 99036 | Skjöldur 91022 | Búkolla 225 | Þverá, Eyjafjarðarsveit |
Nirfill 99037 | Almar 90019 | Flekka 922 | Efri-Brunná, Saurbæ |
Lækur 99038 | Negri 91002 | Búbót 120 | Lækjarbotnum, Landsveit |
Pottur 99041 | Negri 91002 | Díla 41 | Stóru-Mörk, V-Eyjafjöllum |
Trandill 99042 | Hljómur 91012 | Gæfa 351 | Litla-Ármóti, Hraungerðishr. |
Þá var ákveðið að fella Eld frá Svalbarði vegna fótagalla. Rétt er að nefna að fyrir skömmu var eitt þúsundasti kálfurinn frá opnun Uppeldisstöðvarinnar í Þorleifskoti tekinn inn og er það Þúsi frá Eystra-Hrauni í Landbroti í V-Skaft. undan Tjakki 92022 og Giftu 203 Hólmsdóttur 81018.
Í uppeldi eru nú 41 kálfur, þar af 31 fæddir 2000 og fara hinir síðustu fæddir 1999 nú von bráðar að Hvanneyri eins og áður er fram komið. Flestir kálfanna sem fæddir eru á þessu ári eru undan þeim Tjakki 92022 og Smelli 92028.
Þá var fundi frestað fram yfir hádegi.
Fundur hófst aftur um kl. 13.15 í fundarsal BSSL og setti þá formaður fundinn formlega og bauð velkominn nýjan mann í ræktunarhópinn, Egil Sigurðsson á Berustöðum. Sigurmundur Guðbjörnsson hafði þá yfirgefið fundinn. Þá var gengið til dagskrár.
1. Fundargerð síðasta fundar.
Fundargerð síðasta fundar samþykkt án athugasemda.
2. Skýrslur frá Nautastöðinni.
Guðlaugur dreifði yfirliti yfir útsent sæði á árinu og súluritum yfir árangur óreyndra og reyndra nauta það sem af er ársins. Mest hefur verið sent úr Smelli 92028 (2.581 skammtur), Tjakki 92022 (2.285 sk.), Klerki 93021 (1.613 sk.) og Skugga 92025 (1.105 sk.). Önnur reynd naut ná ekki yfir 1.000 skammta þó Negri 91002 og Forseti 90016 séu þar skammt undan (með yfir 900 sk.). Þá er Bætir 91034 með yfir 700 sk. útsenda.
Guðlaugur dreifði yfirliti um árangur frjótækna og útsent sæði eftir svæðum. Þar kemur fram að heldur þarf að auka notkun ungnauta frá því sem er í dag þar sem þau standa nú 45,67%. Reyndu nautin eru í 48,8%. Þetta virðist svæðisbundið og ljóst að aukning þyrfti að verða í ungnautanotkun á sunnanverðum Vestfjörðum, Húnavatnssýslum báðum, Skagafirði, Austurlandi öllu, V-Skaftafellssýslu, Hrunamanna- og Gnúpverjahreppum og vestari hluta Rangárvallasýslu. Athygli vakti að Eyjafjörður er með tæp 52% notkun ungnauta.
Dreift yfirliti um birgðir. Smellur 92028 er að klárast og mun allt verða farið úr honum fyrir jól ef að líkum lætur. Úr öðrum nautum í notkun er til um og yfir 1.000 skammtar eða meira all flestum.
Frá síðasta fundi hafa eftirtalin naut verið felld:
Nafn og nr. | Felldur, dags. | Aldur í mán. | Fall, kg. | Flokkun |
Dynur 99010 | 04.09.2000 | 17 | 143 | UNI M |
Glúmur 99011 | 04.09.2000 | 17 | 177 | UNI M+ |
Sumarliði 99015 | 04.09.2000 | 17 | 176 | UNI M+ |
Mási 99001 | 04.09.2000 | 20 | 190 | UNI A |
Annó 98022 | 21.09.2000 | 28 | 266 | UNI A |
Penni 98021 | 21.09.2000 | 28 | 244 | UNI A |
Lóuþræll 98028 | 06.10.2000 | 27 | 244 | UNI A |
Gróði 98037 | 06.10.2000 | 25 | 238 | UNI A |
Af þessum nautum gaf Glúmur 99011 ónothæft sæði og Dynur 99010, Sumarliði 99015 og Mási 99001 stukku ekki.
Ungnaut í útsendingu núna eru: Umbi 98036, Gróði 98037, Kjói 98038, Lómur 98039, Príor 98042, Boði 98045, Hræsingur 98046, Þrasi 98052, Ábætir 99002, Mímir 99007 og Þollur 99008.
Þá fara í dreifingu innan skamms eða á næstu vikum: Kátur 99012, Spuni 99014, Viti 99016, Hilmir 99021, Duggari 99022, Kani 99024, Kollur 99025, Rökkvi 99026, Tinni 99027 og Örvar 99028.
Á árinu er búið að taka 134.130 sæðisskammta miðað við 127.270 á sama tíma í fyrra.
Guðlaugur skýrði frá því að hann hefði nú lokið uppgjöri á áhrifum mismunandi þynningar á gæði nautasæðis metið út frá fanghlutfalli. Niðurstaðan er eftirfarandi:
Þynning, millj. sæðisfruma í strái | Fjöldi nauta | Fjöldi kúa | Fangárangur |
20 | 43 | 2037 | 65,9 |
25 | 2 | 986 | 65,6 |
30 | 26 | 13162 | 69,8 |
35 | 28 | 12741 | 70,2 |
40 | 1 | 459 | 65,1 |
Blandað | 13 | 6050 | 66,9 |
Í dag eru um 30 milljónir sæðisfruma í strái. Fundarmenn töldu að samkvæmt þessu væri nokkuð ljóst að hinn slaki árangur sem varð í sæðingum árið 1997 væri að nokkru eða jafnvel að verulegu leyti tilkominn vegna aukinnar þynningar sæðis. Aðeins rætt um að þynning sæðis væri mun meiri erlendis og líklega væru sæðisgæði úr íslenskum nautum mun minni en erlendum. Þekkt væri að munur væri milli stofna eða kynja.
3. Uppeldisstöðin.
Framboð á kálfum hefur verið gott utan það að illa gengur að fá aukið framboð undan ungum kúm, fyrsta og annars kálfs.
4. Skýrsluhaldið.
Jón Viðar greindi frá því að það stefndi í afurðaaukningu milli ára, þó varla eins stórlega og í fyrra. Þó nokkuð bættist við af nýjum aðilum í skýrsluhald nú í haust og þarf að vera vakandi fyrir því með fækkun búa.
5. Ný vinnsla á kynbótamati.
Jón Viðar dreifði nýju kynbótamati nauta. Greinilegt að ´94 árgangurinn verður sá albesti árgangur sem fram hefur komið. Engar stórvægilegar breytingar á ferðinni að öðru leyti.
6. Ný naut í notkun.
Í samræmi við ákvörðun hópsins frá því í vor var ákveðið að hefja strax útsendingu sæðis úr nautum fæddum ´94 þrátt fyrir að afkvæmadómi sé ekki lokið. Þetta er gert á grundvelli þess hve gríðarlega hátt kynbótamat þessi naut eru komin með fyrir framlengdar afurðir.
Ákveðið að setja eftirtalin naut í notkun: Sokki 94003, Klaki 94005, Völsungur 94006, Hamar 94009, Pinkill 94013, Vestri 94014, Kaðall 94017, Búri 94019, Frískur 94026, Punktur 94032, Galsi 94034 og Breiði 94037.
7. Önnur mál.
Jón Viðar dreifði fréttatilkynningu landbúnaðarráðherra um leyfi til tilraunainnflutnings á fósturvísum úr NRF-kúastofninum. Aðeins rætt um innflutningsmál.
Ræddar voru fyrirspurnir sem borist höfðu varðandi reglugerðarákvæði um búfjársæðingar.
Rætt var um fósturvísaflutninga úr afbragðskúm. Fundarmenn voru á því að eðlilegt væri að skola kýr sem uppfylla kröfur sem nautsmæður með það í huga að auka líkur á að fá nautkálf á stöð undan þessum kúm.
Jón Viðar nefndi að Fagráð í nautgriparækt ynni nú að undirbúningi umræðufundar um ræktunarmarkmið í íslenskri nautgriparækt í samvinnu við mjólkuriðnaðinn.
Ekki fleira gert og fundi slitið kl. 16.30.