Ræktunarnefnd – 1. fundur 2000
02.03.2000
Fundargerð 2. mars 2000
Fundurinn var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands og hófst kl. 15.30. Mættir voru Jón Viðar Jónmundsson, formaður, sem stýrði fundi, Guðlaugur Antonsson, Guðmundur Stefánsson í forföllum Jóns Gíslasonar, Guðmundur Steinsdórsson, Friðrik Jónsson, Sveinn Sigurmundsson og Guðmundur Jóhannesson er ritaði fundargerð.
Að tillögu Sveins Sigurmundssonar var samþykkt samhljóða að Guðmundur Jóhannesson kæmi inn í vinnuhópinn sem fastur ritari hópsins.
1. Val á nautum á Uppeldisstöðinni.
Þar sem nokkuð var liðið á dag er fundur hófst sökum ófærðar þá var ákveðið að hefja fundarstörf með vali ungnauta á Uppeldisstöðinni og því haldið rakleiðis í Þorleifskot. Þar voru skoðuð og metin 16 naut. Ákveðið að fella Öxul 99003 frá Akbraut, Laup 99004 frá Stóra-Ármóti, Rummung 99006 frá Varmalandi, Pálmar 99009 frá Bringu, Glym 99013 frá Túnsbergi og Breka 99018 frá Sólheimahjáleigu. Hin nautin 10 fari að Hvanneyri:
Nafn og nr. | Faðir | Móðir | Uppruni |
Mási 99001 | Krossi 91032 | Mása 167 | Bryðjuholt, Hrunamannahr. |
Ábætir 99002 | Bætir 91034 | Dumba 619 | Svalbarð, Svalbarðsströnd |
Laukur 99005 | Skjöldur 91022 | Snotra 144 | Hjarðarfell, Snæfellsnesi |
Mímir 99007 | Negri 91002 | Kinna 184 | Litla-Brekka, Skagafirði |
Þollur 99008 | Skjöldur 91022 | Grautargerð 346 | Þverlækur, Holtum |
Dynur 99010 | Tuddi 90023 | Gráskinna 195 | Stóri-Dunhagi, Hörgárdal |
Glúmur 99011 | Stúfur 90035 | Blanda 229 | Skeiðháholt, Skeiðum |
Kátur 99012 | Negri 91002 | Búbót 117 | Steinar, Stafholtstungum |
Spuni 99014 | Stúfur 90035 | Spóla 152 | Berustaðir, Ásahreppi |
Sumarliði 99015 | Skjöldur 91022 | Gullhumla 003 | Stóri-Kroppur, Reykholtsdal |
2. Fundargerð síðasta fundar.
Fundi var framhaldið í fundarsal BSSL að lokinni ferð í Þorleifskot. Fundargerð síðasta fundar samþykkt án athugasemda.
3. Skýrslur frá Nautastöð BÍ.
Guðlaugur dreifði yfirliti yfir útsent sæði 1999. Samtals voru sendir út 49.684 skammtar sem skiptust eftirfarandi:
Reynd naut: | 24.179 | 48,66% |
Óreynd naut: | 23.176 | 46,65% |
Holdanaut: | 2.329 | 4,69% |
Þetta er heldur minna en árið áður enda fækkar sæddum kúm jafnt og þétt á landsvísu. Á árinu voru um 24 þús. fyrstu sæðingar miðað við rúmar 25 þús. árið áður. Þá var árangur betri en undanfarin ár sem aftur minnkar sæðisnotkun enn. Uppgjöri á árangri er enn ólokið en stefnir í u.þ.b. 72% en ljóst er að árangur fer nú batnandi á nýjan leik. Á árinu 1999 voru teknir samtals 163.115 skammtar sem er allnokkru meira en árið 1998. Þá er búið að taka 34 þús. skammta á þessu ári nú þegar.
Frá síðasta fundi hefur eftirtöldum nautum verið fargað:
Nafn og nr. | Felldur dags. | Aldur í mán. | Fall, kg. | Flokkun |
Hornfirðingur 97031 | 13.12.1999 | 27 | 248 | UNI A |
Hersir 97033 | 13.12.1999 | 25 | 247 | UNI A |
Sópur 97040 | 13.12.1999 | 24 | 205 | UNI A |
Viður 98002 | 13.12.1999 | 23 | 218 | UNI A |
Meitill 98008 | 13.12.1999 | 21 | 235 | UNI A |
Garpur 98009 | 13.12.1999 | 21 | 215 | UNI M+ |
Þór 98010 | 04.02.2000 | 23 | 222 | UNI A |
Rokkur 98011 | 04.02.2000 | 23 | 212 | UNI M+ |
Trölli 98023 | 04.02.2000 | 20 | 179 | UNI M+ |
Hnöttur 98033 | 04.02.2000 | 16 | 145 | UNI M |
Þá dreifði Guðlaugur yfirliti yfir sæðisbirgðir og kom m.a. fram að þrátt fyrir verulega förgun á Galloway-sæði eru enn til um 14 ára birgðir. Að lokum fór Guðlaugur yfir rekstur Nautastöðvarinnar á s.l. ári og dreifði fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Ekki er gert ráð fyrir verulegum breytingum en þó er ljóst að sæði mun hækka og væntanlega um 4,8%, úr kr. 730 í kr. 765 á hverja kú. Helsta ástæða þessarar hækkunar er fækkun kúa.
4. Skýrslur frá Uppeldisstöð BÍ.
Á árinu 1999 voru teknir 40 nautkálfar inn á stöðina. Þeir eru allir lifandi sem stendur en væntanlega verður 6 þeirra fargað fljótlega, sbr. lið 1, og 10 sendir að Hvanneyri. Af þessum 40 kálfum eru 24 af Suðurlandi, 5 úr Eyjafirði, 4 úr Skagafirði, 3 úr Borgarfirði, 2 af Snæfellsnesi 1 úr Dölum og 1 úr S-Þing.
Flestir eru undan Negra 91002 en skipting á feður er annars eftirfarandi:
Negri 91002 | 10 |
Skjöldur 91022 | 8 |
Krossi 91032 | 7 |
Tuddi 90023 | 4 |
Þyrnir 89001 | 3 |
Stúfur 90035 | 2 |
Almar 90019 | 2 |
Hljómur 91012 | 2 |
Bætir 91034 | 1 |
Skór 90025 | 1 |
5. Skýrsluhaldið 1999.
Jón Viðar dreifði yfirliti um niðurstöður skýrsluhaldsins 1999. Afurðaaukning milli ára er sú mesta sem orðið hefur og eru afurðir nú 4.579 kg eftir árskú en voru 4.392 kg árið áður. Skráð kjarnfóður eykst úr 699 kg á árskú í 748 kg. Efsta búið, Félagsbúið í Baldurheimi í Mývatnssveit, skilaði 7.160 kg/árskú og eru það mestu afurðir sem bú hefur náð hérlendis á einu ári og í fyrsta skipti sem nokkurt bú fer yfir 7 þús. kg. Næst komu búin hjá Daníel í Akbraut með 6.899 kg og hjá Reyni í Leirulækjarseli með 6.864 kg. Alls náðu 19 bú yfir 6 þús. kg eftir árskú.
Alls munu vera um 82% mjólkurframleiðslu á landinu innan skýrsluhalds og nokkuð ljóst að erfitt er orðið að auka þátttöku mikið frá því sem nú er. Þáttaka er sem fyrr óviðunandi á Kjalarnesi og Austurlandi. Sýnataka úr einstökum kúm virðist ekki vera framkvæmd nægjanlega oft og einkum virðist það vera vandamál á Vesturlandi. Þetta veldur því að efnamælingar skila sér ekki sem skyldi inn á skýrslur. Þá kom fram meðal fundarmanna að hlutfall dauðfæddra kálfa er orðið ógnvekjandi hátt og nálgast nú óðum 10%. Er það tvöfalt á við það sem sjá má í nágrannalöndum okkar.
6. Afkvæmadómur nauta fæddra 1993.
Sá árgangur nauta sem fæddur var 1993 er fremur slakur og til að mynda mun lakari en ´92 árgangurinn. Þó má segja að í heildina sé mjólkurlagni dætra þeirra með ágætum en efnahlutföll liggja yfirleitt undir meðaltali. Þá virðist sem þessa gripi hafi skort verulega á kynfestu og dætur þeirra skortir margt varðandi t.d. júgur- og spenagerð. Sem betur fer má þó finna einstök jákvæð frávik frá þessu.
A-dóm og þar með nautsfeðradóm hlutu aðeins tvö naut; Klerkur 93021 og Blakkur 93026.
B-Dóm og þar með notkunar dóm hlutu; Foss 93006, Akkur 93012, Hnútur 93013, Hnokki 93016, Snarfari 93018, Ýmir 93022, Gári 93023, Torfi 93025, Svartur 93027 og Ölur 93032.
C-dóm og þar með öllu sæði hent hlutu; Gáski 93004, Fífill 93008, Hraukur 93015, Reyr 93017 og Hringur 93019.
Besta naut árgangsins telst vera Blakkur 93026.
7. Nautaskrá – reynd naut í notkun.
Ákveðið hefur verið að hætta útgáfu nautaspjalds en gefa þess í stað út nautaskrá með myndum af nautunum og línulegu mati á myndrænu formi. Þá er nautaskráin einnig á Netinu (Netnautin-http://www.bssl.is/nautaskra) þar sem hún verður uppfærð jafnóðum. Ungnautaspjöldin verða áfram gefin út.
Af nautum fæddum 1993 munu eftirtalin naut verða í skrá; Foss 93006, Akkur 93012, Snarfari 93018, Klerkur 93021, Blakkur 93026 og Svartur 93027.
Af eldri reyndum nautum verða í skrá; Haki 88021, Hvanni 89022, Forseti 90016, Stúfur 90035, Negri 91002, Hljómur 91012, Skjöldur 91022, Bætir 91034, Þokki 92001, Suddi 92015, Frekur 92017, Geisli 92018, Beri 92021, Tjakkur 92022, Skuggi 92025, Tengill 92026 og Smellur 92028.
8. Nautsmæðravalið.
Á árinu 2000 verður sætt með þessum nautsfeðrum; Tjakk 92022, Skugga 92025, Smell 92028, Klerk 93021 og Blakk 92026.
Áfram er miðað við að taka ekki kálfa undan kúm með kynbótamat undir 90 fyrir prótein og einkum horft til kúa með 115 og hærra í heildareinkunn. Eins og áður koma þó álitlegar kýr með 110-114 í heildareinkunn til greina. Þá er greinilegt að ungar kýr og kvígur taka þeim eldri mjög fram í gæðum og því þarf að leggja aukna áherslu á að ná yngri kúnum inn sem nautsmæðrum.
Stefnt verður að því að sérmerkja nautsmæður á sæðingaspjaldinu frá og með haustinu 2000.
9. Skoðun á kúm.
Í núgildandi búnaðarlögum eru engin bindandi ákvæði um sýningahald á nautgripum. Ljóst er að dómar eldri kúa eru nú aflagðir en leggja þarf aukinn þunga í skoðun yngri kúa. Stefnt verður að því að dæma sem flestar kýr og því þarf að fjölga dómurum á stærstu nautgriparæktarsvæðunum. Fjármögnun þess er enn ekki ljós. Samþykkt var að leggja til að fjármunir sem sparast í tengslum við skýrsluhald, í kjölfar þess að mjólkurskýrslur verða sendar með rafrænum hætti til BÍ frá þeim bændum sem taka Ískýr í notkun, verði varið til kúadóma.
Nokkur umræða varð um framkvæmd kúadóma með þessu nýja fyrirkomulagi. Ákveðið að halda áfram að dæma skv. eldri dómstiga samhliða línulega matinu. Dæmdar verði ungar áður ódæmdar kýr en þó ekki fyrr en 30 dögum eftir burð og ekki í geldstöðu. Þetta þýðir að besti tíminn til dóma með hliðsjón af burðartíðni er maí-mánuður. Hins vegar mun haustskoðun leggjast nær alveg af.
10. Önnur mál.
Ræddar voru hugmundir frá Guðmundi Jóhannessyni sem ekki höfðu þá þegar verið ræddar í tengslum við annað á fundinum. Rætt var um skráningu og ættfærslu kálfa strax við burð en slíkt hefur verið mögulegt í gegnum skrá um gipi í uppeldi. Notkun hennar hefur hins vegar aldrei náð útbreiðslu svo neinu nemi. Ákveðið að heyfa málinu ekki fyrr en ljóst er hvort tekin verður upp skyldumerking nautgripa hérlendis en þá mun sjálfkrafa verða að skrá alla gripi. Nokkuð rætt um hvaða form henti til einstaklingsmerkinga í framhaldi af þessu.
Skráning kjarnfóðurs á mjólkurskýrslu tekin fyrir. Fundarmenn voru á sama máli með að ekki væri rétt að fara út í tegundaskráningu á kjarnfóðri heldur yrði líklega raunin sú að skráningu kjarnfóðurs yrði hætt með tíð og tíma. Um leið og tölvuvæðing ykist þá skráðu bændur þetta sjálfkrafa heima á bæjunum en þar væru þessi gögn fyrst og fremst notuð.
Nokkuð var rætt um útreikning á kynbótamati og hvers vegna kynbótamat hérlendis væri reiknað útfrá öllu mjólkurskeiðinu en ekki miðað við 305 daga eftir burð eins og víðast annars staðar. Jón Viðar greindi frá því að þetta hefði verið skoðað á sínum tíma og þá hefði það sýnt sig notkun á öllu mjólkurskeiðinu gæfi betri niðurstöður en 305 dagarnir. Ástæða þess að aðrar þjóðir notuðu305 dagana væri einfaldlega sú að þar hefðu verið til eldri gögn á því formi sem nýttust við útreikninga kynbótamats.
Fundarmenn voru á einu máli um að kanna alla möguleika þess að taka upp notkun handtölva við skráningu sæðinga og kúadóma. Skráning yrði þá í höndum dómara og frjótækna á staðnum. Forsendan fyrir þessu er þó sú að við getum nýtt okkur hugbúnað erlendis frá, t.d. Danmörku, þar sem öll hugbúnaðarþróun er geysilega kostnaðarsöm.
Þá kom fram að stefnt væri að flutningi gagnabanka nautgriparæktarinnar á Netið, t.d. SQL-server, sem gera myndi gögnin aðgengilegri. hins vegar væri raunin sú að tölvudeild BÍ væri í augnablikinu yfirhlaðin störfum í tengslum við t.d. Ískýr, NPK og Veraldarfeng þannig að af þessu gæti ekki orðið fyrr en í fyrsta lagi 2001. Hins vegar myndi vinna við Veraldarfeng nýtast nautgriparæktinni þegar þar að kæmi.
Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 21.40.
Guðmundur Jóhannesson