
Ræktun er menning – bás BÍ á Landbúnaðarsýningunni á Hellu
23.08.2008
Starf bóndans á sér margar hliðar. En fyrst og fremst er hann ræktandi. Til þess að nýta landsins gæði, auðlindir okkar og landið er nauðsynlegt að kunna ábyrga nýtingu. Ræktun. Ræktun er nýting á fjölbreyttum möguleikum, hvort sem það er jörðin sjálf eða búféð. Samfélagið nýtur góðs af. Ræktun er menning…
Á þessum orðum hefst ávarp Bændasamtaka Íslands til gesta og aðstandenda Landbúnaðarsýningarinnar á Hellu. Í því er minnt á sögu samtaka bænda sem orðin er meira en 150 ára löng. Samtökin risu á grunni gamla bændasamfélagsins og af þeirri ástæðu standa þau jafnsterkum fótum í nútíðinni og raun ber vitni. Í ávarpinu segir enn fremur:
„Landið er auðlind og staðgóð þekking á náttúrunni og möguleikum hennar er styrkur bóndans. Þekking hefur flust á milli kynslóða og bætir stöðugt í sjóð hæfni okkar til að lifa í landinu, ásamt menntun og rannsóknum. Þekking okkar á landinu er samt brothætt auðlind, því skal fagnað góðum skilningi og stuðningi þjóðarinnar við starf bænda. Mikill meirihluti hennar vill eiga sterkan landbúnað og blómlegar sveitir. Sveitir landsins, stundum nefndar dreifbýli, eru þjóðinni jafnmikilvægar og þéttbýli, við getum ekki hvort án annars verið.“
Bás Bændasamtakanna er opinn alla sýningardagana og meira en 20 starfsmenn og stjórnarmenn samtakanna munu skiptast á að standa vaktina um helgina. Á myndinni hér undir má sjá þá Harald Benediktsson formann Bændasamtakanna og Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra glaða í bragði við opnun báss BÍ. Bændasamtökin bjóða alla velkomna í básinn þar sem verður tekið vel á móti gestum.