Beint í efni

Ræða Þórólfs Sveinssonar, formanns LK á aðalfundi 2008

04.04.2008

Ágætu fulltrúar, góðir gestir

 

Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa. Þá koma margvíslegar upplýsingar fram á haustfundum Landssambands kúabænda, á aðalfundum aðildarfélaganna og á heimasíðu samtakanna, þannig að vel má vera að ekki rati í prentaða skýrslu nákvæm frásögn af öllu sem gerist.

 Ekki verður komist hjá því í upphafi fundar að vekja athygli fulltrúa á að  aðalfundir aðildarfélaganna voru margir haldnir of stuttu fyrir aðalfund LK. Þetta veldur óþægindum og gerir markvissan undirbúning aðalfundarins erfiðari. Til að ráða bót á þessu hefur stjórn kynnt tillögur að breytingum á samþykktum LK þar sem lagður er grunnur að heppilegri tímaramma.

 Ræða formanns mun nú fjalla að mestu leyti um verðlagsmál mjólkur, svo mjög sem þau mál hafa verið í brennidepli síðustu mánuði. Þegar verðlagsnefnd ákvað í desember sl.  það verð til framleiðenda sem tók gildi 1. janúar 2008, bjóst víst enginn við þeim gríðarlegu hækkunum á kostnaði við mjólkurframleiðsluna sem síðan varð raunin. Verð til bænda hækkaði í áföngum árið 2007 og þær hækkanir tók mjólkuriðnaðurinn á sig, þær fóru ekki út í verðlag.  Segja má að það hafi ekki verið nein alvarleg álitamál á borðum verðlagsnefndar á árinu 2007.  

Kostnaðarmælingin sem lá til grundvallar mjólkurverðinu 1.1.2008 var frá því síðustu daga ágústmánaðar 2007 og það var vitað um nokkra hækkanir, einkum á fóðri og olíu, sem ekki mældust í umræddri verðtöku  Hagstofunnar í lok ágúst. Síðan er það nálægt áramótum sem ljóst verður að kostnaður við mjólkurframleiðsluna er að vaxa langt umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir. Ekki síst varð það ljóst að sá fjármagnskostnaður sem gert var ráð fyrir inni í grundvellinum var orðinn langt frá raunverulegum vaxtakjörum. Verðlagsnefnd fékk síðan Einar Hafliða Einarsson, endurskoðanda hjá Deloitte ehf, til að reikna út fjármagnskostnað í verðlagsgrundvelli kúabús út frá skilgreindum forsendum.
 

Á skýringarmynd 1 kemur fram hvernig fjármagnskostnaðurinn var fundinn. Við mat á hækkun áburðarverðs studdist verðlagsnefnd við upplýsingar frá Ernu Bjarnadóttur ofl.
Að þessum upplýsingum fengnum var framreikningurinn ákveðinn, sjá skýringarmynd 2.
 Eins og þar kemur fram var ákveðið að geyma 525.374- af hækkuðum fjármagnskostnaði og setja inn í grundvöllinn um næstu áramót. Fjármagnsliðurinn stendur sem sagt núna í 3.170.286, en var 2,1 milljón við  framreikning 1. september 2007.  Því er eðlilegt að spyrja hvers vegna verðlagsnefnd hafði ekki fengið fyrr faglegt mat á því við hvaða vaxtastig væri eðlilegt að miða við verðlagningu á mjólk ?  Því er til að svara að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur í árslok 2005 en fram að því hafði fjármögnun í landbúnaði verið í mjög föstum skorðum. Það er því ekki fyrr en vextir fara að hækka árið 2006 og þó sérstaklega árið 2007 sem forsendur skapast til endurskoðunar á þessum lið. Síðan vorum við í verðstöðvunarfasa frá hausti 2006 og svo sem ekki til mikils að endurskoða forsendur meðan það ástand varði. Það skal hins vegar viðurkennt hér og nú að í þetta verk hefði þurft að fara eigi síðar en við framreikning sl. haust og nánast mistök að það skyldi ekki gert. Ef fulltrúar telja nauðsynlegt að gagnrýna einhvern af þessum sökum, er eðlilegt að sú gagnrýni beinist að þeim sem hér talar.

 En það er nauðsynlegt að skoða þessi verðlagsmál betur og á skýringarmynd 3 er skoðað hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2001. Þar kemur m.a. fram að kostnaður vegna mjólkurframleiðslu hefur vaxið verulega umfram almennt verðlag. Því má bæta við að þetta er einkum að gerast við verðlagninguna núna.
 Á skýringarmynd 4 er þetta skýrt nánar og því m.a. velt upp hvort framleiðniaukningin síðustu 8 ár hafi verið ríflega 1 % á ári ?

Það er augljóst að með þeirri verðbreytingu sem nú hefur orðið, hafa orðið ákveðin vatnaskil í verðmyndun til neytenda. Þar sem stuðningur ríkisins er föst verðtryggð krónutala, þá er óhjákvæmilegt við aðstæður eins og nú, að hlutur afurðastöðvanna hækkar en hlutur ríkisins lækkar. Þetta kemur glöggt fram á skýringarmynd 5. Þar kemur m.a. fram að 2001 greiddi ríkið beingreiðslur sem námu 47,1 % af mjólkurverðinu. Nú er þetta hlutfall komið niður í 39,4 %. Þetta hlutfall er reyndar í lágmarki núna og hækkar síðan með hverjum mánuði sem mjólkurverðið er óbreytt en vísitala neysluverðs hækkar.
 Til fróðleiks er mynd sem sýnir þróun hvers útgjaldaliðar í Verðlagsgrundvellinum frá 1.1.2001 til 1.4.2008, skýringarmynd 6.


 En hvað með afurðastöðvarnar og þróunina þar ?   Í stuttu máli má segja að viðsnúningur í afkomu afurðastöðvanna sé um það bil milljarður milli áranna 2004 og 2007, þrátt fyrir umtalsverða hagræðingu í rekstri þeirra. Þessi ávinningur hefur farið til neytenda í lægra vöruverði og til framleiðenda sem afurðaverðsgreiðslur sem ekki fóru út í verðlag. Ljóst má vera að þátttaka mjólkuriðnaðarins í lækkun matvælaverðs haustið 2006 og út árið 2007 skilaði miklu til neytenda, en hefur orðið mjólkuriðnaðinum enn kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir. 
 Það var í sjálfu sér góð samstaða í verðlagsnefnd um þá hækkun sem varð á mjólkurverði 1. apríl sl. þó svo að fulltrúi ASÍ hafi setið hjá við endanlega ákvörðun. ASÍ er í afar erfiðri stöðu gagnvart verðhækkunum um þessar mundir. Samtökin hafa nýlega staðið að kjarasamningum fyrir félagsmenn sína, samningum sem byggðir voru á ákveðnum forsendum sem nú hriktir í eða eru jafnvel að bresta. Við slíkar aðstæður hljóta samtökin að eiga erfitt með þátttöku í aðgerðum sem óneitanlega hækka vöruverð til neytenda og því sjónarmiði verður að sína fullan skilning.

 

 Verðlagshorfur framundan

Þess er fyrst að geta að síðustu vikur hafa orðið umtalsverðar hækkanir á ýmsum kostnaðarliðum en þessar hækkanir mældust ekki við framreikning 1. mars. Líklega nema þessar hækkanir þegar sem svarar 1 – 2 kr/ltr.   Síðan gæti látið nærri að innfluttar vörur í verðlagsgrundvellinum væru fluttar inn m.v. gengisvísitöluna 125, það er vissulega ágiskun en varla alvitlaust. Núna er gengisvísitalan nær 150 og það gefur auga leið að ef svo fer fram einhverjar vikur, þá munu innfluttar vörur í rekstri bænda hækka verulega. Því er þetta nefnt hér að mér þykir gæta ofmats á jákvæðum áhrifum þeirrar hækkunar sem varð á mjólkurverði 1.apríl sl. Hækkunin er vissulega mikil, en hún er vegna framkominna kostnaðarhækkana.  Ávinningurinn af hækkuninni verður fljótur að hverfa ef efnahagsumhverfið verður áfram óhagstætt. Því skiptir miklu að kúabændur fari afar varlega í rekstri og fjárfestingum við þessar aðstæður. Það er t.d. óhjákvæmilegt að gera meiri kröfur um arðsemi fjárfestinga við þessar aðstæður en venjulega. Verði allt mótdrægt í efnahagsumhverfinu, getur næsti vetur orðið mjög  erfiður.

 

Upplýsingar um afkomu kúabænda

 Í þessu sambandi er rétt að nefna það form sem er á framsetningu upplýsinga um afkomu bænda og þá sérstaklega fjármagnsliðina. Það getur ekki gengið að hafa í einni ósundurgreindri tölu greidda vexti, verðbætur og höfuðstólsbreytingar á lánum. Nokkur hluti skulda bænda er í erlendri mynt og í þeim ólgusjó sem nú er í gengismálum og verðbólgu, getur fyrrnefnd summutala verið alveg ómögulegur mælikvarði á raunverulega greiddan fjármgnskostnað á árinu.

 

Hvað næst ?

 Í núgildandi samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar er gert ráð fyrir þeim möguleika að leggja af opinbera verðlagningu til framleiðanda án þess að slíkt raski verðlagningu á heildsölustigi. Af mörgum ástæðum tel ég brýnt að taka afstöðu til þess hvort reyna skuli að fara þessa leið nú á næstunni. Ástæður þessa eru nokkrar:

• Fyrst er að nefna þá samþjöppun sem orðið hefur í íslenskum mjólkuriðnaði. Sú þróun er komin mun lengra en séð varð fyrir árið 2004 þegar mjólkursamningurinn var gerður.
• Í öðru lagi þarf að leggja í umtalsverða vinnu við endurskoðun verðlagsgrundvallarins ef nota á hann áfram sem mælitæki. Af nýrri samantekt Snorra Sigurðssonar má ráða að nálægt því helmingur mjólkurframleiðslunnar komi nú úr fjósum sem byggð hafa verið eða endurnýjuð mjög verulega síðasta áratug. Áður en ráðist verður í endurskoðun verðlagsgrundvallarins frá grunni, þarf að taka ákvörðun um hvort opinbera verðlagningin verður notuð áfram.
• Í þriðja lagi og það skiptir væntanlega mestu máli, þá er afkoma mjólkuriðnaðarins ekki bara komin á núllið, heldur orðin neikvæð. Sú togstreita sem óneitanlega var um ráðstöfun tekjuafgangs í mjólkuriðnaðinum er því ekki lengur til staðar, því það er ekki um neinn hagnað að deila.
• Í fjórða lagi held ég að þetta sé skref í átt til þeirrar framtíðar sem muni óhjákvæmilega koma, að greinin verði háðari markaðnum. Í því sambandi minni ég á það kom fram á skýringarmynd 5 um lækkandi hlut ríkisins í tekjumyndun greinarinnar.

 Það skal áréttað að breyting sem þessi verður ekki gerð nema um hana náist sátt. Á það hefur ekki reynt og vel má vera að við skoðun á málinu komu upp einhverjir þeir meinbugir sem ekki liggja í augum uppi núna.


Mesta hagsmunamálið er lækkun framleiðslukostnaðar !

 Fyrri hluta ársins 2001 fór ég fundaferð um landið og kynnti þá nýjan verðlagsgrundvöll. Á hverri síðu voru ýmsar skýringar og ábendingar. Á síðustu síðunni var þessi lokaniðurstaða:

 ,,Verðlagsgrundvöllur á geta verið nytsamlegt tæki hjálpartæki til að greina hvar helst er hægt að ná niður kostnaði. Lækkun framleiðslukostnaðar er eitt helsta hagsmunamál íslenskra kúabænda’’. 

 Það hefur orðið hlutskipti mitt síðan þessi orð voru skrifuð og sögð, að nota þennan grundvöll til að ná fram leiðréttingum á mjólkurverði. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, en mér finnst okkur ekki hafa gengið sem skyldi að nota grundvöllinn til að lækka kostnað við framleiðsluna. Í greiningu dönsku ráðgjafanna sem komu að RANNÍS-úttektinni 2001, segir í 8.1:

 ,,Kostnaður vegna mjólkurframleiðslu í Danmörku er um 40% af kostnaðinum vegna mjólkurframleiðslu á Íslandi og í Noregi. Bæði breytilegur kostnaður og fastakostnaður (hálffastur kostnaður, afskriftir og fjármagnskostnaður) er talsvert lægri í Danmörku en í hinum löndunum. Hins vegar er skilaverð fyrir mjólk til bænda í Danmörku aðeins 37% af skilaverði mjólkur til bænda á Íslandi. Þannig fá danskir bændur lægstu tekjurnar á hvert kg mjólkur, en með því að framleiða 5-6 sinnum meira magn en norskir og íslenskir starfsbræður þeirra, fá þeir hæstar mjólkurtekjur á bú´´.
 Um þessar mundir er illgerlegt vegna gengissveiflna að bera saman innlendan og erlendan kostnað. Því veit ég ekki hvort og að hve miklu leyti þessi lýsing á við í dag. Það er þó ljóst að við verðum að ræða hvernig við ætlum að takast á við framtíðina að þessu leyti. Minnisatriðin eru þessi:

• Það liggur fyrir að eftir ákveðinn tíma munu sömu heilbrigðisreglur gilda á Íslandi og í ESB hvað varðar innfluttar búvörur, sama matvælalöggjöf mun gilda á flestum sviðum. Þegar sú skipan hefur tekið gildi verður heimilt að flytja til Íslands þær búvörur sem á annað borð fá heilbrigisstimpil innan ESB. Af þessu leiðir að verndartollarnir verða enn sýnilegri.
• Hluti af verndartollunum er krónutala sem rýrnar með innlendri verðbólgu.
• Nýjir alþjóðasamaningar á vettvangi WTO gætu sett skorður við stuðningi við mjólkurframleiðsluna og mælt fyrir um tollalækkanir.
• Innnlenda umræðan sl. 2-3 ár hefur verið á þann veg að verndartollarnir eiga meira undir högg að sækja en áður.
• Mikil umræða er um það hvort íslenska krónan sé nothæf sem gjaldmiðill. Hugsanlegt og jafnvel líklegt má telja að umræðan þróist meira yfir í umræðu um hugsanlega aðild Íslands að ESB.

 En hvað á að gera ?  Það er eitt að vita af vandanum og annað að geta leyst hann. Það hlýtur að vera byrjunin að endurnýja upplýsingar um hvar við stöndum, það hjálpar okkur vonandi að skilgreina vandann en það leysir hann ekki. Það er í rauninni þannig að ekki verður annað séð en nokkur/umtalsverð lækkun á framleiðslukostnaði mjólkur á næstu árum, sé forsenda þess að halda íslenska mjólkurvörumarkaðnum til lengri tíma litið. Takist það ekki, muni hluta markaðarins sinnt með innfluttum mjólkurvörum. Við höfum prófað þá aðferð í nautakjötsframleiðslunni að lækka verðið án þess að nokkuð annað fylgdi með. Afleiðingin var samdráttur í framleiðslu og aukinn innflutningur. Lækkun kostnaðar er forsendan og þarf að koma fyrst, ef verðið á að geta lækkað en framleiðslan að skila sér áfram. Við verðum að muna að landbúnaður er ekki lögmál, heldur atvinnugrein. Það verður ekki framleidd mjólk á Íslandi ef sú starfsemi getur ekki greitt laun. Við erum í samkeppni um fólk og þá og því aðeins aflar hæft fólk sér menntunar og leggur eigur sínar að veði til að stunda mjög bindandi starf, að starfið gefi viðunandi afkomu.

 

 Við höldum þennan aðalfund við mjög óvenjulegar efnahagsaðastæður og mikla óvissu á þeim vettvangi. Ísland er ekki einvörðungu þátttakandi í hinu alþjóðlega fjármálakerfi heimsins, heldur er sú staðreynd að matvæli og hráefni til matvælaframleiðslu eru hvarvetna í heiminum að hækka í verði, ráðandi þáttur í þeirri hækkun á mjólkurverði sem nú er orðin staðreynd.  Ég endurtek ábendingu um nauðsyn þess að sína varfærni í fjárfestingum og rekstri. Það er ekki bara að áætlanir sem gerðar hafa verið og ætlað var að varpa ljósi rekstrarforsendur viðkomandi kúabænda næstu fimm ár eða svo,  séu hrundar. Það er mjög erfitt að spá um þróun allra næstu mánaða, ekki bara hina efnahagslegu þróun,  heldur líka þær þjóðfélagslegu afleiðingar sem efnahagsmálin kunna að hafa.

 

Að lokum

 Frá því síðast aðalfundur var haldinn hafa orðið óvenju mikil umskipti hvað varðar trúnaðarstörf tengdri nautgriparæktinni. Þannig er Guðni Ágústsson er ekki lengur landbúnaðarráðherra, heldur hefur Einar Kristinn Guðfinnsson tekið við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sigurgeir Þorgeirsson er ekki lengur framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, heldur ráðuneytisstjóri í hinu nýja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Eiríkur Blöndal hefur tekið við starfi Sigurgeirs. Drífa Hjartardóttur er ekki lengur formaður  landbúnaðarnefndar Alþingis, heldur hefur Arnbjörg Sveinsdóttir tekið við sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.  Jón Viðar Jónmundsson er ekki lengur nautgriparæktarráðnautur Bændasamtaka Íslands, heldur hafa Magnús B. Jónsson og Gunnfríður Hreiðarsdóttir tekið við því starfi. Því góða fólki sem skipt hefur um starf og horfið til annarra verka, þakka ég gott samstarf og óska því farsældar. Nýtt fólk býð ég velkomið til starfa.
 Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2008, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem Landssamband kúabænda hefur átt samskipti við á liðnu starfsári. Mikil samskipti hafa verið við ráðuneyti landbúnaðarmála, Bændasamtök Íslands, SAM og hefur það samstarf verið með ágætum. Þá vil ég þakka stjórnarmönnunum Sigurði Loftsyni, Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jóhanni Nikulássyni og Sveinbirni Sigurðssyni mjög gott samstarf á starfsárinu. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson  og Guðrúnu Lárusdóttur,  sem og framkvæmdastjórann Baldur Helga Benjamínsson.

 

 Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

                       

Þórólfur Sveinsson, form. Landssambands kúabænda