Beint í efni

Ræða Þórólfs Sveinssonar formanns LK á aðalfundi 2006

06.04.2006

 Ágætu fulltrúar;  Góðir gestir í sal og þið sem fylgist með útsendingu frá fundinum.

 

Upphafið og þróunin

Nú eru liðin tuttugu ár og tveim dögum betur frá því tuttugu fulltrúar frá níu félögum kúabænda hittust í húsnæði Osta- og smjörsölunnar og stofnuðu Landssamband kúabænda. Fyrir tíu árum var tekið saman afmælisrit þar sem sagt er frá stofnun og starfi sambandsins til þess tíma. Þar kemur m.a. fram að á stofnfundinum voru samþykktar nokkrar tillögur. Fyrsta tillagan fól í sér að Landssamband kúabænda skyldi sækja um aðild að Stéttarsambandi bænda sem búgreinafélag. Þarna var strax mörkuð sú stefna sem fylgt hefur verið síðan. Samhliða því að gæta í hvívetna hagsmuna kúabænda skyldi unnið með öðrum bændum að sameiginlegum hagsmunum. Þá var ályktað um tekjustofn fyrir hin nýju samtök, markaðsmál og síðan en ekki síst framleiðslustýringuna. Sá málaflokkur varð til sem viðfangsefni um 1980 þegar stjórnvöld og samtök bænda hófu sameiginlega, en mismunandi sammála, að grípa til aðgerða í því skyni að framleiðsla búvara yrði í takt við markaðsþarfir og komið yrði í veg fyrir tekjuhrun vegna offramleiðslu. Þegar þarna var komið sögu hafði framleiðslustýring verið í mótun í nokkur ár og var komin í fastar skorður að því leyti að árið áður hafði verið gerður samningur við ríkið um verðábyrgð á tilteknu magni mjólkur og kindakjöts. Fjölmargt var samt að breytast og komst ekki í fast form fyrr en með þeim mjólkursamningi og lagabreytingum sem gengið var frá síðla árs 1992. Þegar litið er til baka yfir tímabilið frá 1980, er rétt að hafa í huga að fjölmargar þjóðir höfðu glímt við það á undan okkur að tryggja sína búvöruframleiðslu og stjórna að einhverju leyti. Hver þjóð hefur sín sérkenni og það tók nokkurn tíma að fyrir okkur íslendinga að finna færa leið í þessu efni. Leið sem tryggði að fólk teldi fært að fjárfesta og horfa fram á veginn án ótta um að ,,kerfisbreytingar“ ónýttu fyrirætlanir þess. Við erum talsvert einstaklingshyggjufólk og það var ekki fyrr en framleiðurétturinn varð framseljanleg eign tengd lögbýli, að hlutirnir fóru að ganga með eðlilegum hætti.

En aftur að stofnun Landssambands kúabænda. Það merka fyrirtæki, Osta- og smjörsalan var stofnuð 1958. Á aðalfundi hennar árið 1983 var ákveðið að stofna svokallað Félagsráð. Þar sat einn mjólkurframleiðandi frá hverju mjólkurbússvæði og því var þetta Félagsráð fyrsti lýðræðislegi vettvangur kúabænda í landinu. Það var þetta Félagsráð sem hafði forgöngu um að boða til stofnfundar Landssambands kúabænda árið 1986. Síðar sama ár voru stofnuð Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og þar með var skapað það félagslega landslag í hagsmunagæslu kúabænda og mjólkuriðnaðar sem við þekkjum í dag.
 Það voru 1822 innleggjendur mjólkur á Íslandi þegar Landssamband kúabænda var stofnað og hvernig voru undirtektir meðal kúabænda við stofnun LK ?  Guðmundur Þorsteinsson á Skálpastöðum svarar þessu skýrt og heinskilnislega í fyrrnefndu Afmælisblaði LK. Þar segir.
,, Það sem ég kynntist var allt frekar jákvætt. Félag kúabænda á Suðurlandi ruddi vissulega brautina – það varð til sem andófshópur, dálitið í takt við Sigtúnshópinn í Reykjavík sem mótmælti misgengi launa og vísitölu í tengslum við íbúðarhúsnæði. Þessir bændur á Suðurlandi höfu verulega fundið fyrir þessu misgengi. Síðan þróaðist þetta í takt við aðstæður í þessari grein og í þjóðfélaginu. Vissulega heyrðum við það oft og heyrum raunar enn að samtök kúabænda, hvort sem það er Landssambandið eða einstök félög, hafi ekki nógu algjöra þátttöku meðal kúabænda sjálfra. Það er vissulega rétt að í þessum stóra hópi, sem er vel á annað þúsund manns, þá eru skoðanir skiptar um ýmislegt og það er ósköp eðlilegt“.
 Þetta var mat Guðmundar Þorsteinssonar árið 1996. En hvernig skyldi staðan vera núna ? Erum við sem erum í forsvari fyrir Landssamband kúabænda í dag sátt við stöðu samtakanna ?  Hvað mig varðar þá svara ég þeirri spurningu játandi. Það er áhugi á því sem félagið fæst við og tengsl við grasrótina eru góð, þótt þar megi alltaf gera betur.
 Svo sem áður er fram komið voru 1822 mjólkurinnleggjendur árið 1986. Sl. haust voru þeir 792. Mjólkurkýr voru þá um 34.000 en nú um 24.000 Innlögð mjólk álíka mikil eða um 110 milljónir lítra. Samandregið þá hefur kúabúum fækkað um ca. 56 % á þessum tuttugu árum, kúnum hefur fækkað um ca. 30 % en innlögð mjólk er nánast jafn mikil. Þetta er mikil breyting og engin vafi að afköst á hvert ársstarf hafa vaxið mjög verulega. Ef hægt er að tala um ,,meðalfjós“ þá hefur það gjörbreyst á þessum tíma og í heyverkun hefur rúlluverkunin, sem okkur þykir eiginlega orðin gömul, orðið ráðandi aðferð við geymslu heys. Mikil framþróun hefur orðið í ræktun fóðurjurta og fóðrun kúnna orðið nákvæmari eins og hækkun á meðalnyt sýnir.

Ósýnilega byltingin
Svona mætti áfram telja en kannski er það ósýnilega byltingin sem skiptir mestu máli að skilja. Lengst af hefur það verið þannig að í umfjöllun um landbúnað og bændur hefur sitt sýnst hverjum og svo er það enn. Í þeirri umfjöllun hefur undantekningarlítið verið gengið út frá því að hvað sem á dyndi þá væru bændur þarna, þeir sætu sínar jarðir og framleiddu sínar búvörur. Umræðan gerði sem sagt yfirleitt ekki ráð fyrir að landbúnaðurinn væri í samkeppni um fólk. Að því mjólkurframleiðsluna varðar þá er þetta gamla sjónarmið algerlega úrelt. Það verður ekki framleidd mjólk á Íslandi ef sú starfsemi getur ekki greitt laun. Við erum í samkeppni um fólk og þá og því aðeins aflar hæft fólk sér menntunar og leggur eigur sínar að veði til að stunda mjög bindandi starf, að starfið gefi viðunandi afkomu.
 En er ekkert slæmt við þróun síðustu ára ? Sjálfsagt sýnist þar sitt hverjum en því er ekki að neita að íslensk kúabú eru mörg hver mikið skuldsett. Ég hef áætlað að heildarskuldir nautgriparæktarinnar hafi um síðustu áramót verið um tuttugu milljarðar. Vissulega hafa vaxtakjör batnað verulega og lánstími hefur lengst, en það verður ekki horft fram hjá því að þessi skuldsetning gerir búin viðkvæmari fyrir breytingum í rekstrarumhverfinu og sérstaklega breytingum á fjármagnsmarkaði.

Frá starfsárinu, greiðslumark, framleiðsla og sala nautgripaafurða.
En snúum okkur þá að því sem hæst bar á síðasta ári, ári sem færði okkur fleira óvænt en mörg önnur frá stofnun þessara samtaka. Af faglegum málum vil ég sérstaklega nefna að nú hafa Landbúnaðarháskóli Íslands, Bændasamtök Íslands og Landbúnaðarstofnun, mótað rannsóknaáætlun sem samanstendur af 7 rannsóknaverkefnum og er með þessum hætti vonast til að fundin verði skýring á óviðunandi kálfadauða í íslenska kúastofninum. Magnús B. Jónsson hefur umsjón með þessari áætlun. Þá hefur nokkuð komið til umræðu hvort hægt væri að kyngreina íslenskt nautasæði og fá þannig óskaskiptingu milli kvígna og nauta. Sú tækni sem notuð er til þessa er enn á þróunarstigi og ýmsir annmarkar á að þetta sé raunhæfur valkostur. Það er hins vegar til mikils að vinna ef þetta væri hægt og því er nauðsynlegt að kanna það til hlýtar.
 Þegar kom að ákvörðun greiðslumarks á vordögum 2005 lá tvennt fyrir. Annars vegar að sú ákvörðun skipti engu varðandi ríkisútgjöld. Hins vegar að söluaukning hafði orðið meiri en nokkur gerði ráð fyrir og spár gerðu ráð fyrir framhaldi á þeirri þróun. Miðað við fyrri reiknireglu hefði greiðslumarkið átt að verða 110 milljónir lítra. Fóru nú skoðanir manna nokkuð út og suður hvort móta skyldi nýja reiknireglu, fylgja þeirri gömlu eða fara einhvern milliveg. Niðurstaðan varð sú að miða við tólf mánaða sölutölur til maíloka 2005, og spá um söluþróun. Þannig varð 111 milljón lítra greiðslumark til. Í ljósi þróunar á innvigtun síðustu mánuði hefði það engu breytt þótt greiðslumarkið hefði verið ákveðið hærra. Það eru líffræðilegir þættir en ekki pólitískir sem hafa takmarkað framleiðsluna síðustu tólf mánuði eða svo. Eigi að síður þarf að móta skýrari stefnu í þessu efni og því leggur stjórn LK nú tillögu fyrir aðalfund um að hverju beri að stefna að þessu leyti.
 Já, sala mjólkurafurða hefur gengið einstaklega vel síðasta ár og sérstök ástæða til að þakka það frábæra starf sem unnið er í mjólkuriðnaðinum. Þessi söluauking hefur gerst hratt og því miður hefur ekki gengið eins vel að framleiða. Staðan er þannig núna að síðustu tólf mánuði hafa selst afurðir úr 112,8 milljónum lítra, en framleiðslan er 109,8 milljónir lítrar. Það var ljóst strax á haustmánuðum að staðan yrði erfið og því hefur verið hvatt til aukinnar framleiðslu eftir föngum. Leiðbeiningaþjónustan hefur unnið gott starf í þessu efni, en nú skiptir mestu að slaka ekki á, því mestu skiptir að auka innvigtun í sumar.
 Að sjálfsögðu vissum við að afkastagetu íslenska kúastofnsins væru takmörk sett. Það kom hins vegar alveg á óvart að innvigtun skyldi minnka sex mánuði í röð eftir að greiðslumarkið hafði verið aukið um fimm milljónir lítra. Þessi niðursveifla í innvigtuninni hefur skapað nýja stöðu sem vissulega felur í sér svigrúm fyrir framleiðendur en einnig verulegar hættur sem fyrst koma fram hjá  mjólkuriðnaðinum. Eitt af því sem getur þurft að taka til endurmats eru tilraunir til útflutnings á mjólkurvörum. Þær tilraunir lofa góðu en takmarkað hráefni setur okkur mjög þröngar skorður að þessu leyti.
 Þótt ekki hafi verið teknar um það ákvarðanir, þá bendir allt til þess eins og staðan er núna, að greitt verði fyrir alla innvegna mjólk næsta verðlagsár. 
 Í umræðu um söluþróun á mjólk og mjólkurvörum er nauðsynlegt að geta þess að mjög óvenjulegt ástand hefur verið á smásölumarkaðnum mestan hluta síðasta starfsárs. Mjólk og einstakar mjólkurvörur hafa mánuðum saman staðið til boða á verði sem langt eða talsvert undir kostnaðarverði. Það er jákvætt fyrir neytendur að fá vörur á lágu verði en fyrir mjólkuriðnaðinn og bændur er þetta afar tvíbent ástand. Smásalan þarf að lifa eins og aðrir og ef verslun með mjólk og mjólkurvörur skilar litlu í kassann, er hætta á að minni áhersla verði lögð á þjónustu með þær vörur. Það er svo líka merkilegt að þrátt fyrir að mjólkin væri nánast gefin, þá hafði það nánast engin áhrif á söluna. Líklega má draga þessar ályktanir af því sem gerðist:
1. Mjólkin er mjög nauðsynleg fyrir marga, Því er hún ákjósanleg ef verslanir vilja ná til margra viðskiptamanna.
2. Mjólkin hefur mjög lága verðteygni. Það liggur fyrir að heildsöluverðið er of lágt miðað við ýmsar aðrar vörur. Samkvæmt þessu er það mjög umdeilanleg verðlagning.

 Nautakjötsframleiðslan er álíka mikil og fyrri ár að öðru leyti en því að kúaslátrun hefur dregist verulega saman síðustu mánuði. Eftirspurn eftir nautgripakjöti hefur verið góð og verð  hafa lagast verulega og færst nær því að endurspegla raunverulegan framleiðslukostnað. Nokkur umræða hefur verið um það undanfarin ár hvort taka beri upp EUROP mat á nautakjöti. Nú liggur fyrir fundinum tillaga stjórnar um að hafinn verði undirbúningur að upptöku þess mats. Ástæða er til að ætla að það mat lýsi betur eiginleikum kjötsins en það mat sem við notum í dag. Það er að vísu ekki talað um EUROP mat á mjólk en það er nú þannig að við ákvörðun um gæðakröfur til mjólkur er horft til reglna Evrópusambandsins.

Umræður um búvöruverð, verðlagning ofl.
 Fyrir jól og fram á þetta ár var í fjölmiðlum mjög óvægin umræða um matvælaverð og verndartolla á búvörum. Umræðan hófst með túlkun Samkeppniseftirlitsins á niðurstöðum úr samnorrænni skýrslu um vöruverð. Það er alveg ljóst að dregin var upp villandi mynd af þætti íslenskra búvara í þessu samhengi og til dæmis ekki nefnt að það tekur íslendinga álíka eða styttri tíma en marga aðra að vinna fyrir matarkörfu heimilisins, og ekki var heldur nefnt að ákveðið matvælaöryggi er hverri þjóð nauðsynlegt. Efnisatriði verða ekki rakin frekar hér, en hins vegar þurfum við að ræða hvernig best er að koma málstað okkar á framfæri við aðstæður sem þessar og raunar almennt. Við erum hluti af íslenskum landbúnaði og málsvörn fyrir hann er hjá Bændasamtökum Íslands. Of lítið heyrðist frá þeim fyrstu dagana í þessari orrahríð en ástæðan mun vera sú að forsvarsfólk þeirra komst nánast ekki að grundvallarfjölmiðlum fyrstu 3 – 4 dagana. Málsvörn samtakanna var góð þegar í fjölmiðla var komist. Við eigum ekki bara gott samstarf við SAM, Samtök Afurðastöðva í Mjólkuriðnaði, heldur eru hagsmunirnir oft svo nátengdir að annar aðilinn getur ekki útskýrt sína stöðu án þess að nefna stöðu hins. Það er því oft álitamál hvaðan skýringar og málsvörn eiga að koma. Sú umræða sem þarna var vitnað til er væntanlega byrjun á öðru meiru og það er mjög nauðsynlegt að fara yfir reynsluna af þessu til að við áttum okkur á hvernig við viljum skipuleggja það hvernig við komum okkar málstað á framfæri. Þessi óvægna umræða er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að nú er væntanlega stutt í niðurstöðu í WTO-viðræðunum um aukið frjálsræði í alþjóðaviðskiptum með búvörur. Þá mun skýrast hvaða skyldur verða lagðar á aðildarþjóðir samningsins um almenna lækkun tolla og hvaða breytingar verða skyldum þjóðanna til að heimila innflutning búvara á lágmarkstollum. Frá okkar sjónarhóli séð er það svo fráleitt að íslensk stjórnvöld grípi til einhliða tollalækkana á innfluttum búvörum við núverandi aðstæður að áttum ekki von á umræðunni og hreint ekki með þeim þunga sem í henni var. Umræðan var samt staðreynd og full ástæða til að taka hana mjög alvarlega. Frá okkar sjónarhóli séð er tollvernd búvara af sama meiði og sú skipan að greiða skuli erlendu verkafólki laun í samræmi við íslenska kjarasamninga ef það vinnur á Íslandi.
 Um áramótin skipaði forsætisráðherra nefnd til að greina verðmyndun matvæla og enginn vafi að framhald verður á þessari umræðu.
 Þó það tengist ekki beint, þá er rétt í þessu sambandi að gera verðlagningu mjólkur til bænda að umtalsefni. Það gekk erfiðlegar en verið hefur að ná samkomulagi síðasta haust og niðurstaðan var lakari fyrir mjólkurframleiðendur en verið hefur undanfarin haust. Kannski var það lakast að verðlagsnefnd lagði til að samlögin greiddu ekki arðgreiðslur til innleggjenda vegna ársins 2005. Slíkt inngrip í starfsemi framleiðendasamvinnufélaga er í grundvallaratriðum alveg ómöguleg. Eigendur slíkra félaga verða njóta þess ef skynsamlegar ákvarðanir eru teknar og gjalda þess ef slaklega er staðið að málum. Öflug afurðasölufélög sem hafa burði og vilja til að gera vel í starfi sínu og stunda öfluga vöruþróun, eru ein dýrmætasta eign okkar. Það getur ekki gengið að höggvið sé á tengsl framleiðenda og afurðasölufélaga með þessum hætti. Hvað haustið varðar, þá eru horfur ekki sérlega uppörvandi. Það er gert ráð fyrir vaxandi verðbólgu næstu mánuði, jafnvel spáð að verðbólga mælist allt að 9 %  á ársgrunni eftir nokkra mánuði. Gangi það eftir, verður þörf á mikilli leiðréttingu mjólkurverðs næsta haust. Einu gildir hvort kúabændur eru með skuldir tengdar gengi eða vísitölu neysluverðs, hvort tveggja mun hækka. Þá er þess einnig að geta að ríkisstuðningurinn lækkar um 1 % um næstu verðlagsáramót sem þrengir enn stöðu okkar. Horfur varðandi haustið eru að þessu leyti venju fremur dökkar.   Gildandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og búvörulög, gera ráð fyrir þeim möguleika að fella niður opinbera verðlagningu á mjólk til framleiðenda. Engar viðræður eru í gangi um þá breytingu nú. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að fella niður verðmiðlunar- og verðtilfærslugjald af mjólk.

Verð á bújörðum ofl.
 Í síðustu aðalfundarræðu var fjallað um verðþróun á greiðslumarki og bújörðum og þessi þróun sett í samhengi við þróun íbúðaverðs. Niðurstaða þessarar umfjöllunar var orðrétt þannig ,,einhver efri mörk hljóta að vera á verði greiðslumarks og verði íbúðarhúsnæðis. Það er hins vegar óljóst hversu hátt verð á jörðum getur farið ef eigandinn sækist eftir huglægum notum af eign sinni, það er, gerir ekki kröfu til þess að jörðin standi undir sér eins og við segjum. Það kæmi mér ekki á óvart þótt jarðarverðið eigi eftir að bera mun oftar á góma á næstu árum en hingað til og ráða mun meira um þróun íslensks landbúnaðar en verið hefur“.  Þessi spá hefur gengið rækilega eftir. Verð á greiðslumarki hefir lækkað og engin ályktun liggur nú fyrir aðalfundi Landssambands kúabænda þar sem lýst er áhyggjum vegna verðs á greiðslumarki. Jafnvægi virðist vera að nást á húsnæðismarkaðnum en verð á jörðum heldur áfram að hækka. Það verður þó að taka fram að bújarðir eru ekki í auðskilgreinanlegum einingum og því ekki einfalt að bera saman verð á ólíkum jörðum. En hvað er að gerast og hvaða afleiðingar hefur það ? Það virðist að þrennt hafi gerst á svipuðum tíma:
1. Fjárfestar fá áhuga á íslenskum bújörðum, enda verð á bújörðum óeðlilega lágt fyrir 4 til 5 árum.
2. Bylting verður á fjármagnsmarkaðnum sem gerir þessi viðskipti auðveldari.
3. Um sama leyti er algerlega úreltum ákvæðum jarða – og ábúðarlaga breytt, og vissulega breytt mjög mikið því segja má að í stað þess að opna hliðið hafi öll girðingin verið tekin niður.

Um afleiðingar þessarar þróunar er að svo komnu erfitt að segja. Íslenskar sveitir eru eins og stór tilraunastofa á heimsvísu að þessu leyti og það er of stutt síðan þessi þróun hófst til að við getum fullyrt um afleiðingaranar. Til skamms tíma eru jarðirnar betra veð og það stuðlar að hagstæðari vöxtum. Hjá kúabændum er hvert prósentustig í vöxtum um tvöhundruð milljónir þannig að þetta atriði skiptir máli. Það skiptir líka máli að þeir sem vilja selja eignir sínar geti fengið fyrir þær sem hæst verð. Hins vegar getur þróunin grafið undan landbúnaðinum innanfrá. Til skamms tíma þannig að aðgangur að landi verði takmarkaður en sauðfjárræktin er viðkvæmasta búgreinin að því leyti. Til lengri tíma er hættan sú að þeir sem eiga landið hafi alls ekki áhuga á að nýta það til matvælaframleiðslu. Það einfaldar ekki málið að skilgreingin á landbúnaði hefur verið að víkka og nú getur nánast öll starfsemi sem fram fer í sveit verið skilgreind sem landbúnaður.
 Engin vafi er á því að þetta mál verður á dagskrá áfram.

Innflutningur erfðaefnis ?
 Á tuttuga ára starfstíma Landssambands kúabænda hefur ekkert eitt mál  valdið jafn miklum klofningi innan þess eins og fyrirhugðuð samamburðartilraun með kýr af NRF-stofni en flytja átti fósturvísa af því kyni til landsins.  Hvað sem um það mál má segja, tel ég að sú atkvæðagreiðsla sem fram fór haustið 2001 hafi verið félagslega afar mikilvæg fyrir Landssamband kúabænda. Við þorðum að spyrja grasrótina og fórum að fyrirmælum hennar. Fyrir þessum aðalfundi  liggja tillögur um að huga á nýjan leik að innflutningi á erfðaefni úr vænlegu kúakyni. Engin tillaga liggur þó fyrir um að taka upp þráðinn frá 2001 og hefja undirbúning að lokaðri rannsókn eins og þá var ætlunin. Það er erfitt að ræða þetta mál nema sem hluta af framtíðarsýn íslenskrar mjólkurframleiðslu og enn stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvernig á að bera saman ávinning af lækkuðum framleiðslukostnaði annars vegar, á móti þeirri breytingu að framleiða mjólkina ekki með landnámskyninu hins vegar. Það er vel hægt að nálgast mat á því hvaða  fjárhagslegur ávinningur verður af notkun afkastameira kúakyns. Hitt atriðið er jafn erfitt að meta nú og þegar málið var á dagskrá áður.
 Á þessum fundi þarf að ákveða hvort Landssamband kúabænda á að koma að þessu máli. Aðkoma félagsins að fyrirhugaðri tilraun sem hafnað var 2001, var sjálfsögð þar sem þá var ætlunin að afla þekkingar sem hefði komið öllum til góða. Hugsanlegur innflutningur erfðaefnis nú beinist að því að fá sem fyrst afkastameiri og hagkvæmari gripi í framleiðslu. Með hliðsjón af því sem á undan er gengið, er ljóst að taka verður fullt tillit til félagslegra sjónarmiða ef fela á Landssambandi kúabænda eitthvert hlutverk í þessu efni. Þá yrði að skilgreina vænlegustu leið eða leiðir og leggja málið síðan í dóm kúabænda í almennri atkvæðagreiðslu þegar valkostir hefðu verið ákveðnir.

Nokkur hversdagsleg atriði
Því miður hefur enn ekki verið sett reglugerð um gripagreiðslur en réttur til þeirra byrjaði að myndast 1. september 2005. Í þessu efni er tíminn að hlaupa frá okkur og mjög brýnt að setja reglugerðina sem fyrst ef standa á við þau áform að hefja gripagreiðslurnar um næstu verðlagsáramót. Það hefur heldur ekki tekist að standa við þau fyrirmæli sem síðasti aðalfundur LK gaf, að fyrir þennan fund skyldi leggja drög að skiptingu þess hluta framleiðslutengdra beingreiðslna sem færast á yfir í minna markaðstruflandi stuðning á samningstímanum. Ástæðan er ekki síst að WTO-samningarnir hafa dregist og ekki fullljóst hvort leikreglur um grænan stuðning verða algerlega óbreyttar frá sem nú er. Vissulega hefur nokkur hugmyndasöfnun farið fram en lengra er málið ekki komið. Undan þessu verkefni verður ekki vikist og málið kemur til kynningar hjá kúabændum, hvort sem það verður á fundum okkar í haust eða á næsta aðalfundi.
 Félag kúabænda á Suðurlandi gekkst fyrir ráðstefnu nú í vetur þar sem horft var til framtíðar í mjólkurframleiðslunni. Þetta var gott framtak hjá félaginu og tókst vel. Eitt af því sem þarna kom skýrt fram var hversu fátæk við erum af grunnupplýsingum um stærðarhagkvæmni og hagkvæmni einstakra tæknilausna í mjólkurframleiðslunni. Þetta höfum við rætt margsinnis en breytingar til bóta eru nánast engar. Við þessar aðstæður er ákveðin hætta á að ekki sé nægilega traustur grunnur að ákvörðunum um fjárfestingar. Þetta er afleit staða en fátt um leiðir til úrbóta.
 Hér verður ekki fjallað sérstaklega um WTO-samningana að þessu sinni. Greint hefur verið frá gangi mála í Bændablaðinu og fleiri fjölmiðlum. Þess er vænst að áfangar náist í samningunum á þessu ári og að niðurstaðan muni hafa áhrif á íslenskan landbúnað.
Heimasíður Landssambands kúabænda
Það kostar vissulega talsverða vinnu að halda heimasíðu LK, naut.is  þokkalega lifandi. Daglegir gestir síðunnar vilja sjá sem mest nýtt og mikilvægt að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum umfram þolmörk því þá fækkar heimsóknum á síðuna.
Á “Kýrhausnum” hafa oftlega verið mjög skemmtilegar umræður. Fjölmiðlar landsins fylgjast vel með vefnum og hafa ýmsar fréttir af vefnum og úr umræðum á “Kýrhausnum” ratað í stóru fjölmiðlana.
Á árinu var byrjað að selja auglýsingar á vefinn og hefur það skilað viðunandi árangri.
Neytendavefur LK, kjot.is, nýtur hylli og að öðrum ólöstuðum er það fyrir gott starf ritstjóra vefsins, Kristínar Lindu Jónsdóttur, bónda í Miðhvammi í Aðaldal.

Nýr framkvæmdatjóri, nýtt aðsetur
Snorri Sigurðsson sagði starfi sínu lausu frá áramótum og eru honum færðar bestu þakkir fyrir kraftmikið starf í þágu Landssambands kúabænda um leið og við vonumst til þess að eiga við hann góða samvinnu í hans nýja starfi sem forstöðumanns Búrekstrarsviðs Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég vil persónulega þakka Snorra fyrir afar þægilegt samstarf sem ekki bar skugga á. Ákveðið var að ráða Baldur Helga Benjamínsson sem framkvæmdastjóra og tók hann við starfinu um sl. áramót. Þá var einnig ákveðið að færa skrifstofu félagsins og er hún nú í húsnæði Osta- og smjörsölunnar við Bitruháls í Reykjavík. Við væntum mikils af Baldri og bjóðum hann sérstaklega velkominn til starfa.
 
Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2006, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem Landssamband kúabænda hefur átt samskipti við á liðnu starfsári. Svo sem undangengin ár hafa tengsl og samskipti við landbúnaðarráðherra og landbúnaðarnefnd Alþingis verið góð og fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Samskipti við afurðastöðvar í mjólkuriðnaði og samtök þeirra fara sífellt vaxandi og hafa verið með ágætum. Þá vil ég þakka stjórnarmönnunum Sigurði Loftsyni, Agli Sigurðssyni, Guðnýju Helgu Björnsdóttur og Jóhannesi Jónssyni mjög gott samstarf á starfsárinu. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson  og Guðrúnu Lárusdóttur,  sem og framkvæmdastjórana Snorra Sigurðson og Baldur Benjamínsson. Margrét Helga Guðmundsdóttir er ritari hjá LK í hlutastarfi. Hún er í barneignarfríi núna en leggur okkur lið þessa fundardaga. Fyrir þá aðstoð og annað starf hennar í þágu Landssambands kúabænda vil ég þakka.

Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

Egill Sigurðsson, stjórnarmaður í Landssambandi kúabænda, og Jón Gíslason, sem er fulltrúi Mjólkurbús Borgfirðinga hér á fundinum, voru báðir meðal þeirra tuttugu fulltrúa sem stofnuðu Landssamband kúabænda. Mig langar að biðja þá að koma hér upp og þiggja ostakörfu sem þakklætisvott fyrir mikið og gott starf í þágu íslenskra kúabænda.